Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 12:11:18 (1589)


[12:11]
     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er ágætt að það komi hér fram við 1. umr. þessa frv. að það er alger ósamstaða um megintilgang frv. innan hæstv. ríkisstjórnar. Hér kemur hæstv. landbrh. og talar gegn frv. þannig að ég sé ekki betur en það sé útséð um það að þetta frv. verður ekki að lögum á þessu þingi. Hæstv. ráðherra talaði um það að fólkið vildi fá að ráða og það er mikið rétt, ég get tekið undir það, fólkið heimti sinn rétt. Ég held hins vegar að hæstv. landbrh. gangi of langt í því að telja að eftirlit með þjóðgörðunum eigi einungis að fara fram af heimamönnum. Ég vil ekki ganga svo langt. Ég tel hins vegar að þarna eigi að stíga ákveðið skref og ég lét það koma fram í ræðu minni hér áðan en það að t.d. þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum eigi eingöngu að vera undir stjórn Norður-Þingeyjarsýslu tel ég ekki vera rétt. Þjóðin sem slík hefur sinn rétt og ekki bara heimamenn þegar við erum að tala um dýrmætustu náttúruperlu landsins og um það eigum við að geta náð samstöðu í þessu litla landi að standa þannig að málum að um það sé samstaða. Ég veit hins vegar að hæstv. landbrh. vill ekki samstöðu um þetta mál og ég lét það koma fram hér áðan að honum fjarstöddum að hann vill að það sé stríð um þetta málið.