Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 13:32:34 (1595)


[13:32]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég tel fulla ástæðu til að fagna því að hér er komið fram frv. til laga um vernd Breiðafjarðar sem, eins og fram hefur komið, hefur lengi verið í bígerð og menn hafa haft áhuga á að koma á. Ég tel að hér sé mjög merkilegt og nauðsynlegt mál á ferðinni. Í meginatriðum tek ég undir það sem segir í frv. og þann tilgang sem hæstv. umhvrh. lýsti með flutningi þess en engu að síður eru einstaka atriði sem ég held að sé rétt að ræða frekar og varða það.
    Breiðafjarðareyjar og Breiðafjörðurinn er svæði sem á sér langa og mjög merka sögu í lífi þjóðarinnar. Lífríki þarna er mjög sérstakt eins og dregið er fram bæði í greinargerð og kom fram í ræðu áðan. Útgerðarsaga við Breiðafjörðinn er sömuleiðis mjög merk og um það eru til mjög miklar heimildir. Í eyjunum hafa bændur haft óvenjumiklar nytjar. Þarna hefur verið mikill hlunnindabúskapur, meiri en víðast hvar annars staðar á landinu, og þarna hefur þróast það sem kallað er eyjabúskapur en það eru búskaparhættir sem um margt eru sérstæðir og að sjálfsögðu háðir þeim skilyrðum sem búseta á eylandi skapar.
    Sömuleiðis er þarna um að ræða langa mannlífs- og menningarsögu --- einkum í kringum byggðina í Flatey sem var mjög blómleg um tíma. Það hefur verulega breytt um búskaparhætti í Breiðafjarðareyjum eins og flestir vita og sem dæmi um það er að af þeim 40 jörðum sem kallaðar voru eyjajarðir og voru í byggð fyrir tæpum 300 árum, árið 1703, eru nú aðeins tvær í byggð. Aftur á móti hafa landjarðir svokallaðar við Breiðafjörð enst aðeins betur. Þar eru mun fleiri jarðir byggðar nú. Hins vegar hefur önnur byggð aukist verulega í Breiðafjarðareyjum og það er svokölluð sumarbyggð, þ.e. oft og tíðum ættingjar, afkomendur þeirra sem þarna bjuggu áður. Þeir hafa fest tryggð við átthagana og dvelja þar um lengri eða skemmri tíma, einkum að sumarlagi.
    Mér þykir gott að heyra það sem hæstv. umhvrh. sagði áðan að það hefur verið haft mikið samráð við menn sem búa í eyjum og umhverfis Breiðafjörð um það bráðabirgðafrv. sem lagt var fram í fyrra og því hefur verið breytt að verulegu leyti til samræmis við skoðanir þær sem þar komu fram. Ég held að það sé líka alveg nauðsynlegt að ekki sé verið að taka heil byggðasvæði, eins og þarna er, til ráðstöfunar af opinberri hálfu án þess að íbúarnir séu þar með í ráðum. Raunar tel ég að íbúarnir eigi að vera meira með í ráðum en hér er ráð fyrir gert.
    Hæstv. umhvrh. var mjög tíðrætt um að hér væri ekki um að ræða miðstýringu, hér væri ekki um að ræða ákvörðun ráðherra í einu eða neinu eða nánast þannig. Samt sem áður verður ekki fram hjá því gengið að hér er verið að taka þetta svæði til opinberrar umfjöllunar og að miklu leyti til ráðstöfunar opinberra aðila þrátt fyrir það samráð og þær tillögur sem gert er ráð fyrir að gerðar verði. Þeir eyjabændur sem ég hef talað við um þetta frv. hafa ekki lagst gegn setningu þess í meginatriðum. En þeir óttast samt sem áður að frv. af þessu tagi geti hindrað rétt þeirra. Þeirra sjónarmið er það að verndun lands og lífríkis á svæðum á borð við Breiðafjörðinn eigi í rauninni fyrst og fremst að felast í búsetu, að felast í þeirri virðingu sem bændur sem þarna hafa alist upp og þarna starfa bera fyrir umhverfi sínu, náttúrunni og lífríkinu. Það verði að gæta þess einstaklega vel, og það verða menn að hafa í huga þegar þetta frv. er til skoðunar, að það má aldrei friða gegn nýtingu heldur verður friðunin að beinast að því að vernda nýtinguna, þær hefðbundnu nytjar sem verið hafa og vernda þannig líka lífríkið sem er á svæðinu á eðlilegan hátt.
    Ég vona og trúi því að þetta sé það sem haft er að leiðarljósi við samningu frv. en síðan verður reynslan að leiða í ljós hvort það verða á því breytingar þannig að ekki sé vafi á að þessi tilgangur náist. Í frv. segir að tilgangur þess sé að stuðla að vernd Breiðafjarðar, einkum vernd á landslagi, einstökum jarðmyndunum og lífríki auk menningarsögulegra minja. Þetta tekur til eyjanna og þetta tekur líka til fjaranna í innri hluta fjarðarins. Þar er dregin lína úr Hrafnanesi og um tiltekin sker og eyjar í Búlandshöfða að sunnanverðu.
    Í 4. gr. er ákvæði um Breiðafjarðarnefnd. Ég hef velt því svolítið fyrir mér hvernig sú nefnd er skipuð og hvernig hún ætti að vera skipuð. Þegar litið er á markalínurnar að norðanverðu, sem er um Hrafnanes á Barðaströnd, kemur í ljós að allverulegur hluti af norðanverðri strandlengjunni tilheyrir Vestur-Barðastrandarsýslu. Þaðan er þó enginn fulltrúi í Breiðafjarðarnefnd þrátt fyrir það að þar séu allmiklir hlutar til ráðstöfunar og til verndar samkvæmt frv. Að vísu er mér tjáð í ráðuneytinu að aðeins sé um að ræða tvö sker eða eyjar sem eru undan landi á svæði Vestur-Barðstrendinga, en samt sem áður eru þar miklar fjörur og heilmiklar minjar sem falla undir þessi friðunarákvæði. Hæstv. ráðherra nefndi einmitt Vatnsfjörð í því sambandi sem hefur mikla sögulega þýðingu og lífríkið í fjörunum þar er á sinn hátt merkilegt líka.
    Með þetta í huga sýnist mér að ekki væri óeðlilegt að einn fulltrúi til viðbótar kæmi inn í þessa Breiðafjarðarnefnd sem nú er skipuð sex mönnum. Hæstv. ráðherra talaði um að þessi nefnd væri vel skipuð þannig að gætt væri sjónarmiða heimamanna, þeir ættu þarna sína talsmenn og fullan rétt. Þegar maður lítur betur á eru þeir í minni hluta í nefndinni. Nefndarmenn eru sex en atkvæði formanns ræður falli atkvæði jöfn sem þýðir að heimamenn eru í minni hluta í nefndinni. Ég velti því mikið fyrir mér hvort það sé nauðsynlegt og ekki síður hvort það sé eðlilegt að heimamenn séu í minni hluta.
    Ég hef spurst fyrir um það hvort ekki hafi verið rætt um það að gefa Vestur-Barðstrendingum aðild að Breiðafjarðarnefndinni og mér hefur verið sagt að þeir sem hafi verið rætt við hafi ekki talið eðlilegt að Vestur-Barðstrendingar væru í nefndinni. Þegar ég spurði enn frekar, eins og gert er þegar verið er að fá fram ákveðna skoðun í skoðanakönnunum, þá kom reyndar í ljós að við Vestur-Barðstrendinga hafði ekki verið rætt. Þetta tel ég ámælisvert ef rétt er, að verið sé að stofna nefnd og setja lög um landsvæði sem falla undir yfirráð héraðsnefndar Vestur-Barðastrandarsýslu án þess að rætt sé við þá sem um það land eiga að sjá og fjalla. Mér var sagt það í ráðuneytinu að ekki hefði verið leitað umsagnar Vestur-Barðstrendinga um það hvort þeir ættu hlut að þessari nefnd.
    Í frv. segir: ,,Umhvrh. setur að fengnum tillögum Breiðafjarðarnefndar . . .  `` Nú vitum við hvað þetta orðalag ,,að fengnum tillögum`` þýðir. Það þýðir í rauninni að Breiðafjarðarnefnd skal segja það sem henni finnst um málið en umhvrh. getur gert það sem honum sýnist. Stjórnsýslan og reynslan af orðalagi eins og þessu sýnir okkur að þannig má hann gera. Nú er ég ekki að segja að þess sé kannski að vænta að umhvrh. fari alla tíð svona að málinu. Hins vegar höfum við sorgleg dæmi frá ýmsum ráðherrum um að þessi heimild er nýtt út í æsar ef svo þykir henta. Ég tel því að samráð hefði mátt vera í þessu líka.
    Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í orðið vörsluáætlun. Það getur vel verið að orðið sé nokkuð lýsandi og það megi ráða af því hvað í því felist. Ég skoðaði greinargerðina og ég sá ekki neina skilgreiningu á því við hvað væri átt og hefði gjarnan viljað fá að vita hvort þetta er algerlega óbundið eða hvort settur hafi verið einhver rammi um það sem þessi vörsluáætlun á að innihalda. Mér finnst ekki nægileg skýring að í vörsluáætlun eigi að koma fram hvernig ná skuli markmiðunum og þykir líklegt að til þess að þetta ætti að geta gengið vel þyrfti að vera skýrar kveðið á um hvað eigi að felast í henni.
    Í frv. er talað um skynsamlega nýtingu svæðisins. Hjá fyrrgreindum íbúa Breiðafjarðar hefur enn fremur komið fram að þeir óttist að þeim verði settar óeðlilegar skorður við starfsemi á búum sínum. Það

kemur að vísu fram í skýringum að lögbýli falli ekki undir þessi lög heldur skipulagslög almennt og má ætla að eðlilegar framkvæmdir á lögbýlum verði ekki hindraðar með þessari lagasetningu. Samt sem áður er viss ótti við það að hefðbundnum bústörfum og nytjum sem hafa verið um aldir á jörðum í Breiðafirði verði settar skorður sem bændur eiga kannski erfitt með að sætta sig við. Ég veit svo sem ekki hvort hægt er að setja takmarkanir í þessi lög sem tryggja það fyllilega, en hins vegar er mikilvægt að það komi fram bæði í umræðum og skýringum að slíkt sé ekki og megi ekki vera tilgangur þessa frv. En í 6. gr. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem ekki eru fyrir hendi samþykktar skipulagsáætlanir á því landsvæði sem um getur í 2. gr. er hvers konar mannvirkjagerð óheimil svo og jarðrask nema að fengnu samþykki Breiðafjarðarnefndar.`` Þetta er greinin sem menn hafa svolítinn ugg af.
    Svo er það í sambandi við 5. gr. Þar segir að reglugerð skuli kveða á um aðgang ferðamanna að tilteknum stöðum og svæðum sem viðkvæm eru vegna náttúrufars. Nú tek ég undir þann tilgang laganna að gæta þess að umferð ferðamanna raski ekki náttúru eða valdi spjöllum á henni. En hitt verður líka að vera mjög skýrt að þessum lögum sé ekki ætlað og þau megi ekki verða til að draga úr eða hindra aðgang ferðamanna að þessu svæði. Við búum við að nýr atvinnuvegur á Íslandi sem heitir ferðaþjónusta er í miklum og örum vexti. Það sem ferðaþjónustan hefur fyrst og fremst verið að selja og markaðssetja út um allan heim eru einmitt staðir og svæði eins og Breiðafjarðarsvæðið. Eins og ég gat um áðan fagna ég þess vegna að sett skuli vera lög um verndun þess og ég tel ekki óeðlilegt að ákvæði séu um ferðamennskuna en það má ekki verða til þess að stórum svæðum verði lokað fyrir aðgangi ferðamanna heldur miklu frekar hitt að fjármagni verði varið í að bæta svo aðstöðu þar sem ferðamennska er á þessu svæði að ferðamenn geti ferðast um án þess að skemma þetta viðkvæma svæði og lífríki þess, t.d. með merkingum á leiðum, með skipulagi á ferðaþjónustunni, með gangstígum og fjöldamörgu öðru. Það held ég að sé mjög þýðingarmikið, að við lokum ekki þessu svæði fyrir ferðamönnum og alls ekki fyrir þeim sem vilja nytja þarna land á eðlilegan og hefðbundinn hátt.
    Í 7. gr. er talað um starfrækslu náttúrurannsóknastöðvar. Ég vil sérstaklega fagna þessu ákvæði og taka undir það. Ég held að þetta sé mál sem kannski er brýnast og eðlilegast að hefja sem allra fyrst. Samkvæmt kostnaðaráætlun er hér ekki um óbærilegan kostnað að ræða, en auðvitað kostar þetta allt peninga. Ég held að það mundi styrkja mjög alla starfsemi sem þarna er ef þessi náttúrurannsóknastöð kemst á fót og vona að það verði fljótlega.
    Ég vil ítreka það að ég er síður en svo að leggjast gegn frv. Það eru viss ákvæði sem ég tel alveg nauðsynlegt að gætt verði við setningu og framkvæmd. Þar vil ég nefna aftur verndun nýtingar, hlunninda og hefðbundins búskapar og að þess verði sérstaklega gætt að ekki verði ráðist á nokkurn hátt gegn þeim sem þetta stunda. Ég vil ítreka aftur að reglur um ferðamenn verði ekki til að útiloka þá frá svæðinu heldur til að bæta umgengni þeirra og vernda náttúruna frá ágangi af þeirra völdum. En þeir verða að fá að fara þarna um og njóta þess með okkur sem þarna er að hafa.
    Síðan held ég að væri mjög æskilegt í 4. gr. að setja inn samráð við ferðamálanefndir og ferðamálasamtök. Ferðamálanefndir starfa í fleiri og fleiri byggðum og m.a. í byggðum kringum Breiðafjörð er mér kunnugt um. Ferðamálasamtök þeirra landshluta sem liggja að Breiðafirði eru líka starfandi. Þetta eru nefndir og samtök sem hafa mikinn áhuga á því að ferðamennska verði með þeim hætti að landinu stafi ekki tjón af og þess vegna held ég að til viðbótar við náttúruverndarnefndir sé nauðsynlegt að ferðamálasamtök og ferðamálanefndir komi þarna inn. Með því móti minni ég á það sem ég hef verið að segja, að ferðamennska er orðin atvinnugrein á þessu landsvæði og Breiðafjarðarsvæðið mun byggja verulega mikið á ferðamennsku og e.t.v. er það þannig sem Breiðafjörðurinn getur aftur komist til nytja að verulegu leyti.
    Að lokum vil ég árétta að ég tel nauðsynlegt og ég fer fram á það að rætt verði við fulltrúa héraðsnefndar Vestur-Barðstrendinga um það hvort þeir kæra sig um eða fái a.m.k. tilboð um að sitja í þessari nefnd og hafa þar með eitthvað um þetta landsvæði sem undir þeirra umsjá er að segja.