Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 13:50:57 (1596)


[13:50]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Bjarnason spyr eðlilega um samsetningu Breiðafjarðarnefndar. Það er rétt að það komi fram að það var ekki til þeirra leitað og Vestur-Barðstrendingum var í rauninni ekki gefinn kostur á því að segja álit sitt á þessu. Fyrir því liggja eftirfarandi rök:
    Það landsvæði sem tilheyrir þeirri sýslu og beinlínis gæti komið til álita vegna verndarinnar sem þetta frv. gerir ráð fyrir er svo afskaplega lítið. Þar er eins og hv. þm. greindi frá um að ræða tvær eyjar eða sker. Hins vegar er það rétt hjá honum að þar er nokkur strandlengja en ef ég man rétt þá liggja sýslumörkin handan Vatnsfjarðar og Vatnsfjörður er nú þegar í eigu ríkisins. Vatnsfjörður er nú þegar friðlýst svæði þannig að á honum hvílir meiri vernd en gert er ráð fyrir með þessum lögum að muni ná yfir svæðið. Það er ástæðan. Hins vegar finnst mér ekkert óeðlilegt að þetta sjónarmið komi fram.
    Að því er það varðar hver fer með meiri hluta í nefndinni þá minni ég á það að í upphaflegri gerð

frv. höfðu heimamenn meiri hluta og ég er alls ekki hræddur við það. Mér finnst það allt í lagi og ég tel sjálfsagt að það verði kannað í hv. umhvn. hvort rétt sé að Vestur-Barðstrendingar fái þarna fulltrúa. Ég lýsi því alveg hiklaust yfir að ég er ekki á móti því. Það var hins vegar talið að með því mundi skapast nokkurt misvægi ef þeir sem hafa tvær eyjar eiga fulltrúa í nefndinni meðan þeir sem eiga 2.500 eyjar og eru þó ótaldir boðar og sker hafa einungis einn fulltrúa --- eða að vísu þrjá. Þetta misvægi gerði þetta að verkum en ég lýsi því aftur yfir að ég er ekki á móti því að þetta verði skoðað til hlítar.