Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 13:52:42 (1597)


[13:52]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. svarið. Það staðfestir það sem ég sagði áður að það var ekki leitað til Vestur-Barðstrendinga. Mér finnst þetta ámælisvert og þetta minnir mig aðeins á að einhvern tíma var það talið áhættulaust af einstökum Íslendingum að láta skika eins og t.d. Grímsey af hendi við útlendinga. Síðar kom það nú í ljós að þar mátti hafa óvígan her. Ég skal ekki segja að þetta sé sambærilegt, en samt sem áður finnst mér útilokað að setja lög um landsvæði undir lögbundnum yfirráðum nefnda eða ráða, svo sem héraðsnefndar Vestur-Barðstrendinga, án þess svo mikið sem tala við þá. Ég geri þá kröfu að við þá verði rætt. Hvort sem niðurstaðan verður að þeir fái fulltrúa í þessari nefnd eða ekki þá tel ég það skýlausa kröfu að við þá verði rætt um ráðstöfun lands sem undir þá heyra. Jafnvel þó að ríkið eigi Vatnsfjörð þá er samt sem áður eftir land báðum megin við hann í Vestur-Barðastrandarsýslu sem ekki heyrir undir ríkið en heyrir undir héraðsnefnd Vestur-Barðastrandarsýslu.