Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 14:34:20 (1604)


[14:34]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég yrði væntanlega að standa hér lengi dags ef mér ætti að takast að telja einhvern skilning á þessu máli inn í hið ágæta höfuð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Ef hv. þm. hefði kynnt sér það frv. sem hann ræðir um hér svo fjálglega þá hefði hann m.a. séð að það kemur fram í greinargerðinni að á einstökum stöðum, fjölförnustu stöðunum í Breiðafirði, er fuglalíf nú talið í hættu vegna

of mikillar ágengni. Það út af fyrir sig, ef slík þróun mundi halda áfram, hlýtur að fella stoðir undan hefðbundinni nýtingu hlunninda. Ég vil t.d. að það komi fram að mér hafa bæði ritað bréf og haft við mig samband æðarbændur á þessu svæði sem kvarta undan umferð hraðbáta sem trufli æðarkollur yfir varptímann. Þetta frv. gerir m.a. kleift að taka á því og það tel ég vera nauðsynlegt vegna þess að ég segi það mjög einlæglega að einn af megintilgangi þessa frv. er að skjóta stoðum undir þá búsetu sem þarna er. Hv. þm. heldur því fram að hér sé verið að frysta ástandið. Það er því miður svo að hvorki í mannheimum né í heimum lífríkisins er eitthvert ástand sem er varanlegt. Öllu miðar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið og það er svo að lífríki þarna í sumum stöðum kann og er nú þegar hætta búin. Við erum að reyna að skapa ramma til þess að því hnigni ekki og til þess að skjóta stoðum undir hlunnindabúskap.
    Ég bendi á það líka að þarna er vaxandi ferðaþjónusta sem er mjög jákvætt. Það þarf með einhverjum hætti að vera hægt að fella þær í slíkar skorður svo að saman geti farið sá hefðbundni eyjabúskapur og sú hefðbundna nýting hlunninda sem þarna er og ferðaþjónusta. Það er afskaplega nauðsynlegt. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um það. En að öðru leyti af því að hv. þm. er að eðlisfari bjartsýn og jákvæður maður þá er ég hissa á því að hann sjái ekkert jákvætt við þetta, nákvæmlega ekki neitt. Það er nákvæmlega ekkert í þessum lögum sem kemur í veg fyrir það að menn geti tekið búfesti þarna á nýjan leik. Ég bendi á það að þessi lög gera það m.a. að verkum að það væri hægt að grípa til ráða til þess að koma í veg fyrir að hraðbátaklúbbar í Reykjavík kaupi og myndi hlutafélög um eyjaklasa eins og uppi hafa verið hugmyndir um og halda frekar þessum eyjaklösum til búsetu þeirra manna sem vilja aftur snúa á fornar slóðir.