Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 15:37:11 (1612)


[15:37]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki betur en hv. þm. leggi mér þann skilning í hug að ég vilji banna mönnum yfirráð yfir eigin náttúru. Það er af og frá. Ég tek það fram, virðulegi forseti, að ef menn lesa þetta frv. þannig að því sé stefnt gegn byggð í Breiðafirði þá dettur mér helst í hug þegar andskotinn las Biblíuna. Því að það er alveg þveröfugt sem verið er að gera með þessu frv. og það er eiginlega ekki hægt nema með mjög einbeitnum ásetningi að lesa annað út úr frv. Ég er honum þess vegna algerlega ósammála um það.
    Ég vil hins vegar biðja hann afsökunar á því að ég svaraði ekki öllum spurningum hans áðan. Það var eingöngu vegna þess að ég taldi að ég hefði meiri tíma en raunin varð á.
    Vegna þess að hv. þm. hefur varpað til mín spurningum sem lúta að því hvenær sveitarstjórnir við Breiðafjörð hafi beðið umhvrh. að taka af þeim vald þá vil ég bara að það komi fram að ég hef aldrei orðað það að þær hafi beðið mig um að taka neitt vald af þeim. Hins vegar hef ég lýst því mjög gaumgæfilega að þessi ráðherra gerði drög að frv. og sendi það til þeirra sveitarstjórna sem hlut áttu að máli. Það gerðist í desember sl. og í framhaldi af því hélt ég fund í Stykkishólmi með fulltrúum þessara sveitarstjórna. Þá höfðu sveitarstjórnirnar haft þetta frv. til umfjöllunar í nokkurn tíma og það komu að mig minnir fulltrúar frá hverju einasta sveitarfélagi. Ekki einn einasti hafði andmæli fram að færa við frumvarpsdrögunum eins og þau voru þá og voru þau þó harðari en þau eru í dag, var þá enn meira vald í höndum ráðherrans en það er í dag. Ég get því ekki túlkað þessi viðbrögð öðruvísi en svo að þetta hafi bara fallið í næsta frjóan jarðveg þar vestra.
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur spurt mig talsvert út í valdsvið Breiðafjarðarnefndarinnar annars vegar og hins vegar vald ráðherra. Til þess að taka af öll tvímæli þá nefndi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson að það lægi fyrir að þegar menn beittu orðalagi eins og ,,að fengnum tillögum``, þá þýddi það í rauninni, hafi ég skilið hann rétt, að ráðherra væri ekki heimilt að breyta stafkrók frá því. Ég tel að sá skilningur sem hv. þm. hefur látið uppi um þetta sé víðs fjarri góðum stjórnsýsluvenjum og hefðum, ég tel það fráleitt. Ég bendi líka á það að í frv. er talað um að hún sé ráðherra til ráðgjafar. Meginstefna frv., sem vefur sig eins og rauður þráður í gegnum frv. sjálft og greinargerðina líka, er að það skal byggja á tillögum Breiðafjarðarnefndar eftir að þær hafa hlotið umsögn og álit sveitarstjórna. Það er fráleitt að ég lýsi því hér yfir að ráðherra muni framselja það vald sem felst í reglugerðarsetningu til þessarar nefndar, það get ég ekki. Ég tel einfaldlega að ég hafi enga heimild til þess. Ég tel að ég hafi ekki lagalega stöðu til þess að gera það.
    Ég lýsi því hins vegar yfir að ætlunin með þessu er sú að heimamenn hafi sem mest forræði og tillögurnar komi frá Breiðafjarðarnefnd sem hefur leitað álits hjá sveitarstjórnum. Að því búnu er það ráðherrans að staðfesta þessar reglur, en auðvitað getur hann líka hafnað þeim. Hann hefur auðvitað vald til þess að breyta einhverju, en að meginstofni til á að láta heimamenn hafa sem mest forræði á málinu. Ég veit það að hv. þm. grunar mig ekki um græsku á því sviði þó að ég sjái það að hann ber kvíðboga fyrir framtíðinni. Hann veit ekki hver kemur í staðinn fyrir hið milda yfirvald sem núna vélar um umhverfismál í ráðuneytinu.
    Vegna þess að hv. þm. spurði sérstaklega um samráð við sveitarstjórnir þá er það tekið fram t.d. varðandi vörsluáætlunina að það á hafa samráð við sveitarfélögin. Það er alveg klárt. Og það er alveg klárt að tillögur Breiðafjarðarnefndar eiga að hljóta umsögn sveitarstjórnanna.
    Ég er með öðrum orðum að reyna það sem ég get til þess að ná fram annars vegar markmiðum frv. og hins vegar að hafa sem mest frumkvæði og mest forræði á málinu í héraði. Ég hef vísað til ákveðinna fordóma í þessum efnum.
    Hv. þm. hefur líka spurt hvort ráðherra hyggist jafnvel taka á öðrum efnisatriðum í reglugerð en hér eru nefnd. Ég get ekki fortakslaust kveðið upp úr gegn því. Ég tel að það komi upp sú staða að mögulegt sé að það verði gert, já. Og það sé líka mögulegt að Breiðafjarðarnefnd muni fjalla um aðra hluti en beinlínis eru negldir niður með nöglum í frv. Svarið er já við því. 5. gr. er ekki tæmandi upptalning á því sem á að vera í reglugerð. Ég held að ekki sé hægt að segja það. Það geta alltaf skapast einhverjar aðstæður sem gera það að verkum að menn verða að grípa til viðbragða. Menn verða að taka á einhverjum málum sem eru ekki beinlínis negld niður í lögin. Jafnvel þó að þetta sé framsýnn ráðherra er ekki þar með víst að hann sjái allt það sem gerist í framtíðinni.