Sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 15:45:12 (1614)

[15:45]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þetta frv. er mjög einfalt í sniðum. Hinn 30. ágúst sl. var undirritað samkomulag milli stjórnar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda um sameiningu þeirra í ein heildarsamtök frá og með 1. jan. 1995 og er gert ráð fyrir því að hin nýju samtök taki við öllum eignum og réttindum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda, svo og skuldum og öðrum skuldbindingum hverju nafni sem nefnast. Það lá auðvitað fyrir að um leið og slík sameining ætti sér stað væri óhjákvæmilegt að breyta ýmsum lögum þar sem kveðið er á um það með hvaða hætti eða hvar Búnaðarfélagið eða Stéttarsambandið komi að ýmsum málum. Var af því tilefni lögð vinna í það að fara yfir hin ýmsu lög sem lúta að þessum samtökum bænda og var niðurstaðan sú að nú á þessu hausti væri nauðsynlegt að flytja frv. þess efnis sem hér liggur fyrir, mál. nr. 174. Í 1. gr. segir að við sameiningu bændasamtakanna skuli hin nýju samtök taka við réttindum og skyldum Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins. En stjórnir þeirra skulu frá og með 1. jan. nk. í sameiningu fara með það hlutverk sem öðru hvoru sambandinu er ætlað í einstökum lögum uns hin fyrsta stjórn hinna nýju samtaka hefur verið kjörin en eftir það skuli sú stjórn fara með hlutverkið og er búist við því að hin nýju samtök verði kölluð saman til fundar í marsmánuði nk.
    Þá er í 2. og 3. gr. fjallað um að starfsmenn Búnaðarfélags Íslands sem fastráðnir séu hjá félaginu 31. des. 1994 og verði starfsmenn hinna nýju samtaka haldi áunnum lífeyrisréttindum sínum og geti áfram átt aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins með réttindum og skyldum sem fyrir er mælt í lögunum. Ríkissjóður ábyrgist gagnvart hinum nýju samtökum skuldbindingar þeirra við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins vegna lífeyrisréttinda samkvæmt þeirri grein sem ég vitnaði áður til. Að síðustu er gert ráð fyrir í 4. gr. að um leið og hin nýju samtök hafi sett sér formlegar samþykktir skuli þessi lög tekin til endurskoðunar.
    Þetta frv. er eins og ég sagði mjög einfalt í sniðum og mál nr. 175 lýtur raunar að hinu sama, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.
    Ég hef í sjálfu sér ekki meira um þetta að segja en legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn. svo og næsta máli, nr. 175.