Sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:05:50 (1617)


[16:05]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég hef heyrt þessar röksemdir hæstv. landbrh. áður að það hafi verið búið að slá öllu í gadda áður en hann komst að EES-samningnum. Ég ætla ekki að fara að orðlengja það við hann, ég hef aðra skoðun á því. Hann sýndi heldur engan vilja til þess að leiðrétta það sem aflaga hafði farið. Hins vegar tel ég að GATT-samningurinn sem gerður var í tíð hæstv. núv. landbrh. sé miklu hættulegri fyrir landbúnaðinn og í honum miklu meiri hættur fyrir íslenskan landbúnað heldur en nokkurn tímann í EES-samningnum. Við háðum miklar umræður um GATT fyrir nærri tveimur árum síðan og ég ætla heldur ekki í þeim takmarkaða tíma sem ég hef að fara að endurtaka það sem þar var sagt en það kom náttúrlega berlega í ljós að þar vann hæstv. utanrrh. frægan sigur á hæstv. landbrh.
    Varðandi afurðastöðvarnar eða sölumeðferð Sambandsins á kjöti þá ætla ég ekki að fara að verja hana hér. Sjálfsagt má finna ýmislegt að því og því fyrirkomulagi sem var á útflutningsbótunum. Ég er ekki að leggja til að taka sama fyrirkomulag upp, ég er að leggja það til að þær verði bundnar í prósentu við það verð sem þær seljast erlendis þannig að það verði hvati til þess að á hverjum tíma þá leiti söluaðilar hinna bestu markaða.
    En hluti af vandræðum afurðasölunnar á vegum Sambandsins var náttúrlega sá og kannski upphafið að þessu að hefja beingreiðslurnar. Meðan umboðssölukerfið var við lýði þá gátu afurðastöðvarnar staðið sig en eftir að þær voru skyldaðar til að greiða bændum jafnóðum eða svo til jafnóðum þá datt úr því botninn og þær voru settar í hengingarólina.