Sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:08:17 (1618)


[16:08]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var athyglisvert að hv. þm. viðurkenndi algjörlega í sínu máli, bæði með beinum og óbeinum hætti, hvernig frammistaða SÍS í útflutningsmálum landbúnaðarins hefði að síðustu orðið bændum að falli. Auðvitað er það laukrétt hjá hv. þm. og gott að fá það staðfest af hans munni.
    Ég held að það sé líka eftirtektarvert sem hv. þm. sagði þegar hann talaði um umboðskerfið. Það er laukrétt að bændur höfðu sínar framleiðsluvörur í umboðssölu hjá kaupfélögunum víðs vegar um landið. Því miður kom í ljós síðar að kaupfélögin höfðu misfarið með þetta fé og hafa bændur víða um land

orðið að bera þungan skaða af þeim sökum vegna þess að viðkomandi kaupfélög hafa orðið gjaldþrota og ekki getað greitt bændum fyrir afurðir þeirra og heldur ekki fyrir innstæður þeirra í innlánsdeildum kaupfélaganna. Þannig að það kerfi hafði líka gengið sér til húðar.
    Svo verð ég að síðustu að segja að það er svolítið undarlegt þegar hv. þm. segist vera ósammála mér um það að síðasta ríkisstjórn hafi hunsað bændur í sambandi við samningana um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég spyr hv. þm.: Er það rétt eða rangt sem ég segi að síðasta ríkisstjórn tók ákvörðun um það í ársbyrjun 1991 að fulltrúar íslensku ríkisstjórnarinnar skyldu verða fjarverandi þegar málefni landbúnaðarins voru rædd í sambandi við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði? Er þetta rangt eða rétt, hv. þm.? Ætlar hv. þm. að koma hér upp og svara því? Fer ég þar með rangt mál eða ekki? Það þýðir ekki að skjóta sér undan og segja: Ég hef aðra skoðun á því. Annaðhvort stendur þetta skráð eða ekki. Annaðhvort fer ég með rétt mál í þessu efni eða ekki.