Sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:10:19 (1619)


[16:10]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að bera blak af þeim hjá SÍS enda koma fæstir þeirra mér neitt við.
    Hæstv. landbrh. sagði að kaupfélögin hefðu misfarið með fé bænda. Þetta þykir mér nokkuð stór orð og væri ágætt að hann fyndi þeim stað að það hefðu verið kaupfélögin. Í mínu kjördæmi er það a.m.k. ekki svo. Þar hafa kaupfélögin staðið sig ágætlega. En hins vegar veit ég af því að Slátursamlag Skagfirðinga hefur farið á hausinn og Verslunarfélagið á Hvammstanga og bændur hafa beðið af því mikinn skaða. En þar á hæstv. landbrh. fyrst og fremst að sakast við flokksbræður sína.
    Ég ætla nú að láta hæstv. fyrrv. landbrh. eftir að munnhöggvast við hæstv. núv. landbrh. um hverjum hafi verið að kenna trassaskapurinn í landbúnaðarmálum í EES-samningnum. En það var núv. ríkisstjórn sem lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að gefa hæstv. utanrrh. fullt umboð eftirlitslaust til samninga um Evrópska efnahagssvæðið. Það gerðist ekki í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Það var eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.