Aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:43:34 (1630)


[16:43]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 69 um aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor en flm. ásamt mér eru Kristín Einarsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún J. Halldórsdóttir og

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
    Tillögugreinin er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi til stuðnings íbúum Austur-Tímor í því skyni að binda enda á harðstjórn og mannréttindabrot sem þeir hafa mátt sæta um árabil af hálfu Indónesíustjórnar.``
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð óvenjulegt að tillaga af þessari gerð sé flutt á hinu háa Alþingi og menn spyrja væntanlega: Hvers vegna er verið að taka út eina svona litla eyju lengst í austurheimi? Eru ekki framin mannréttindabrot um allan heim? Hvers vegna að beina sjónum á þennan stað? Fyrir því eru ýmsar ástæður. Ástandið sem ríkt hefur í tæplega 20 ár á austurhluta eyjunnar er með því hörmulegasta sem menn hafa séð í veröldinni. Þarna á í hlut lítil kaþólsk þjóð sem talar sérstakt tungumál og hefur mátt sæta miklu harðræði þannig að á tímabili var talað um þjóðarmorð.
    Ástæðan fyrir því að ég tók þetta mál upp er sú að þegar ég var á fundi í Lissabon fyrir tveimur árum með flóttamannanefnd Evrópuráðsins þá kom þetta mál upp. Nefndin heimsótti miðstöð íbúa frá Austur-Tímor sem hafa aðstöðu í Portúgal en Portúgölum rennur blóðið til skyldunnar. Eftir að hafa ráðið austurhluta eyjunnar Tímor um árhundraða skeið hefur þeim þótt þeir hafa nokkrar skyldur við íbúana og hafa veitt fjölda þeirra hæli í Portúgal. Þar komst ég í kynni við þetta mál og síðan gerðist það að haft var samband við okkur kvennalistakonur frá Noregi og leitað eftir stuðningi við málstað Austur-Tímor, m.a. af þeirri ástæðu að Ísland er eina Evrópuþjóðin sem í 19 ár hefur stutt tillögu hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem innrás Indónesíu er fordæmd og Indónesíustjórn hvatt til að draga her sinn til baka. Þetta hefur vakið athygli íbúa Austur-Tímor og þeirra sem hafa verið að beita sér fyrir þeirra málum. Það var reyndar í gegnum persónuleg sambönd sem ég dróst inn í þetta.
    Við kvennalistakonur lögðum þessa tillögu fram í fyrra og hún vakti þá nokkra athygli og varð til þess að fjölmiðlar fjölluðu nokkuð um þetta mál. Það hefur leitt til þess að hér kannast margir við ástandið sem þarna er og þegar Austur-Tímor komst allt í einu í fréttirnar nú um helgina þá vissu margir hvað um var að ræða. En frá því að við lögðum þessa tillögu fram í fyrra hefur ýmislegt gerst. Indónesíustjórn hefur orðið fyrir ýmiss konar áskorunum vegna þessa máls og hefur fengið athugasemdir, m.a. vegna þess að Al Gore, varaforseti Bandaríkjanna, hefur kynnt sér þessi mál sem m.a. kom fram í því að á fundinum í Jakarta nú um helgina ræddi Clinton Bandaríkjaforseti við Suharto forseta Indónesíu og gerði athugasemdir við ástand mannréttindamála í Indónesíu, þar á meðal væntanlega ástandið á Austur-Tímor. Jafnframt þeim fundi gerðist það í Jakarta að stúentar frá Austur-Tímor komust inn á lóð bandaríska sendiráðsins og tókst að vekja rækilega athygli á sínum málum. Jafnframt því urðu nokkrar óeirðir á Austur-Tímor.
    En það hafa átt sér stað viðræður milli Indónesíustjórnar og þeirra hreyfinga sem hefur verið leiðandi fyrir íbúa Austur-Tímor, Fredelin er hún kölluð, og eru nokkrar vonir bundnar við þessar viðræður, von um það að Indónesíustjórn muni draga her sinn til baka jafnvel á næsta ári.
    Enn eitt sem gerst hefur á síðustu mánuðum var að til stóð að halda mannréttindaráðstefnu um ástand mannréttindamála í Austur-Asíu, þar á meðal Austur-Tímor, á Filippseyjum sl. sumar, en Indónesíustjórn greip inn í og hótaði stjórn Filippseyja öllu illu ef þessi ráðstefna yrði haldin. Filippseyingar sáu sér ekki annan kost vænni en að hætta við, enda greinilega miklir hagsmunir í húfi fyrir Filippseyinga. M.a. ætlaði frú Mitterrand, forsetafrú Frakklands, að sækja þessa ráðstefnu. Þessar hótanir Indónesíustjórnar urðu einnig til þess að vekja athygli á málefnum Austur-Tímor.
    Ég vil geta þess einnig, hvort sem það var vegna þessarar tillögu eða hvað það var, þá nefndi Gunnar Pálsson sendiherra í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú í haust Austur-Tímor þegar hann var að tala um mannréttindabrot. Hann talaði þarna í umboði hæstv. utanrrh. að sjálfsögðu og þetta vakti einnig nokkra athygli.
    Ástæðan fyrir því að við erum að leggja fram þessa tillögu er sú að við erum svo lánsöm hér á Íslandi að vera ein örfárra þjóða sem ekki komust í skýrslu Amnesty International vegna mannréttindabrota. Þó að menn geti deilt um það hvort hér ríki fullkomin mannréttindi þá erum við í hópi örfárra þjóða sem með nokkrum rétti geta talað máli mannréttinda og það eigum við að gera.
    Ég ætla ekki að rekja sögu Austur-Tímor, en það kemur fram í greinargerðinni hvað þarna hefur verið á ferðinni, hvers konar mannréttindabrot hafa verið framin og hvers vegna. Það vill svo til að í sundinu á milli Tímor og Ástralíu eru olíulindir og þær eru auðvitað meginástæðan fyrir því að Indónesar réðust inn á austurhluta eyjarinnar og lögðu hana undir sig því að ella hefði orðið þarna til landhelgi sem þeir hefðu ekki átt aðgang að.
    Í Indónesíu er gríðarlega mikið um erlendar fjárfestingar og þar eiga fjöldamörg lönd hagsmuna að gæta. Indónesar eru mjög rík þjóð, eiga miklar auðlindir og það veldur því að því miður eru það oft viðskiptahagsmunir sem ráða ferðinni þegar í hlut eiga ríki sem taka við erlendum fjárfestingum. Menn horfa þá fram hjá því að þar eru framin mannréttindabrot og mætti nefna hér til fleiri þjóðir.
    En það er ýmislegt að gerast í þessum málum sem betur fer eins og ég hef rakið og m.a. hefur ríkisstjórn Íslands eða hæstv. utanrrh. lagt málinu lið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég vona svo sannarlega að hann og þeir sem eiga eftir að gegna hans embætti hafi augun opin gagnvart þessu máli eins og reyndar fleiri sem snerta mannréttindi hvar sem er í heiminum. En eins og ég kom inn á er hér um nokkuð sérstakt mál að ræða vegna þess hversu lítil þjóð á þarna í hlut og vegna þess hversu grimmilega hefur verið gengið fram í mannréttindabrotum. Það hefur verið sagt að það sé hægt að nefna þrenns konar grimmilegustu þjóðarmorð sem framin hafi verið í heiminum á þessari öld. Þar er nefnd til útrýming á Kúrdum af hálfu Tyrkja, útrýming á gyðingum, einkum af hálfu Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni, og loks sú útrýming sem íbúar Austur-Tímor hafa mátt sæta. Það er erfitt að áætla hversu margt fólk býr nú á Austur-Tímor. Það er talið að þeir séu um 700 þús. en ættu með réttu að vera um milljón. Hermenn Indónesíustjórnar hafa notað þá aðferð að ráðast inn í þorp og hafa drepið karlmenn en skilið konur og börn eftir, sem hefur m.a. leitt til hungursneyðar. Matvælaframleiðslan hefur dregist saman og það er enn ein aðferðin til þess að útrýma þessari litlu þjóð.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa tillögu en legg til að henni verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn. að lokinni þessari umræðu.