Skýrslur stofnana Háskóla Íslands um ESB-aðild

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 10:36:53 (1638)


[10:36]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Satt að segja vakti þessi auglýsing athygli mína og ég hef eins og aðrir þingmenn veitt því athygli að þessar skýrslur voru skrifaðar. Það er umdeilanlegt að ýmsu leyti hvernig háskólinn stendur að þessu máli. Ég hef að vísu tekið eftir því að háskólarektor vill ekki að þessar skýrslur séu kallaðar skýrslur háskólans eins og ég heyrði að hv. þm. gerði. Ég skil háskólarektor mjög vel að hann skuli ekki vilja kalla þetta skýrslur háskólans miðað við allar aðstæður. En ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Einari Guðfinnssyni og bæta því jafnframt við að ég tel að það sé eðlilegur hlutur að forsætisnefnd Alþingis hlutist til um það að allir þingmenn fái aðgang að þessum skýrslum eins og þær leggja sig. Ég veit ekki betur en þær séu kostaðar af almannafé og að þjóðin sé að greiða fyrir þessa vinnu með skattpeningum sínum og þess vegna tel ég eðlilegt að alþingismenn fái þessar skýrslur til umræðu þannig að um þær sé hægt

að fjalla hér, en menn þurfi ekki, eins og hv. þm. orðaði það, að neyðast til þess að fara jafnvel á fundi í Alþfl. til að sjá þessar skýrslur. Það sér auðvitað hvert mannsbarn í þessari virðulegu stofnun að gengur alls ekki að nokkur sæmilegur maður leggi á sig.