Skýrslur stofnana Háskóla Íslands um ESB-aðild

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 10:43:20 (1642)


[10:43]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég þakka eins og fleiri hafa gert frummælanda fyrir að vekja athygli á þessu sérkennilega máli. Ég held að þessi málsmeðferð öll sé mjög athyglisverð. Ég hef orðið var við það í umræðum um þetta mál að á það hefur verið bent af forustumönnum í Háskóla Íslands að hér sé ekki um að ræða skýrslur Háskóla Íslands heldur skýrslur nokkurra einstaklinga sem starfa hjá Háskóla Íslands. Ég held

að það sé mjög nauðsynlegt að halda þessu til haga og hafa um leið í huga það sem ýmsir málsmetandi menn, þar á meðal ráðherrar í núv. ríkisstjórn, hafa bent á að í þessum skýrslum eru dregnar ýmsar ályktanir sem verða að teljast mjög persónulegar, litaðar af persónulegum skoðunum þeirra einstaklinga sem þær semja.
    En úr því að skýrsluhöfundar hafa valið þá leið að birta niðurstöður sínar á flokksfundi í Alþfl. er í raun og veru fengin niðurstaða um eðli þessara skýrslna. Þetta eru greinilega skýrslur Alþfl. í þessu máli sem Alþfl. hefur látið nokkra menn í háskólanum vinna fyrir sig. Úr því að þær eru birtar á þessum vettvangi þá sýnir það í hendingskasti hvert eðli þessara skýrslna er.