Kynning á íslenskri menningu

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 11:16:05 (1647)

[11:16]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir það sem hann sagði um þetta mál. Ég er sammála meginatriðunum sem fram komu hjá honum. Fyrst það að ég tel alveg sjálfsagt að þessi miðstöð sem þarna er talað um hafi samvinnu við þessa aðila, Útflutningsráð og Ferðamálaráð. Ég held hins vegar að fenginni pínulítilli reynslu að það væri ekki rétt að ætla þessum aðilum að annast menningarkynninguna. Það sem hér er verið að tala um er fyrst og fremst það í fyrsta lagi að reyna að stilla saman eins og kostur er, án þess að stjórna þeim endilega, þá aðila sem eru hvort sem er í þessum verkum. Það eru mjög margir að hugsa um kynningu á íslenskri menningu erlendis. Þar er auðvitað fyrst menntmrn. Menntmrn. hefur sennilega, eins og ég sagði áðan, 20--30 millj. á liðum sem nú eru kallaðir óskiptir í þessi verk og fara aðallega eða nær eingöngu í kynningu á íslenskri menningu erlendis.
    Í öðru lagi er um að ræða sveitarfélögin.
    Í þriðja lagi er um að ræða fyrirtæki sem eru að kynna íslenska menningu erlendis. Ég nefni t.d. bókaforlög eins og Mál og menningu, sem hefur verið með mjög virka kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis, t.d. á bókmenntamessunni í Gautaborg. Vafalaust mætti nefna í þessu sambandi önnur fyrirtæki. Ég man t.d. eftir Vöku-Helgafelli í því sambandi og sjálfsagt eru þau fleiri. Þannig að fyrirtækin hafa verið að gera talsvert í þessu efni og þar er um að ræða talsvert mikla fjármuni. Sama er að segja um einstakar ríkisstofnanir. Ég nefni í því sambandi Sinfóníuhljómsveit Íslands sem kynnti m.a. fyrir menntmn. fyrir nokkrum dögum mjög myndarlegt átak sem Sinfóníuhljómsveitin hefur verið að vinna í kynningu á íslenskri menningu með því m.a. að leika á hljómplötur og geisladiska nokkur klassísk verk sem hafa verið gefin út á alþjóðlegum markaði með mjög myndarlegum árangri. Það er auðvitað líka kynning á íslenskri menningu. Það mætti nefna fleiri ríkisstofnanir af sama tagi og Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem hafa þannig verið að kynna sína starfsemi á erlendum vettvangi.
    Síðan má í þessu sambandi benda á, hæstv. forseti, að það eru fjölmargir alþjóðlegir sjóðir sem Ísland er aðili að sem eru að kynna íslenska menningu. Dæmi um það eru t.d. norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn sem er mjög öflugur og Íslendingar fengu úr þeim sjóði á fyrstu starfsárum hans 200 millj. kr., á fyrstu tveimur árunum, eða svipað og íslenski kvikmyndasjóðurinn nam alls. Norræni kvikmyndasjónvarpssjóðurinn hefur þá reglu að fyrir utan það að styrkja framleiðslu og gerð kvikmynda þá styrkir hann sérstaklega markaðssetningu þeirra, auglýsingu og dreifingu myndanna og það náttúrlega skiptir geysilega miklu máli.
    Hið sama er að segja um Evrópska kvikmyndasjóðinn, sem Íslendingar hafa verið aðilar að í sex ár og heitir Eurimages. Úr þeim sjóði hafa íslensk kvikmyndafyrirtæki fengið þó nokkra styrki, m.a. til þess að markaðssetja íslenskar kvikmyndir á evrópskum vettvangi.
    Síðast en ekki síst nefni ég í þessu sambandi norrænu sjóðina. Þar er um að ræða ótrúlega mikla fjármuni sem koma hingað til fjölbreyttustu menningarverkefna og eru líka notaðir til þess að kynna íslenska menningu erlendis. Norðurlandaráð hefur sérstakt verkefni í gangi á sínum vegum sem lýtur að kynningu á norrænni menningu á erlendum vettvangi eða utan Norðurlanda. Þessi starfsemi hefur t.d. beinst að kynningu á norrænni menningu í Japan og Bandaríkjunum. Á næsta ári er gert ráð fyrir því að norrænir

sjóðir verji líklega um 250 millj. kr., hvorki meira né minna, til þess að kynna sérstaklega menningu Norðurlanda á stórri sýningu sem verður í Madrid árið 1995. Þannig að það er fullt að gerast, mjög margt að gerast og það er ekki þannig að menn geri ekki neitt á þessu sviði, það er langt frá því. Hins vegar er það mín reynsla og margra annarra sem hafa verið að vinna í þessum verkum að það mætti kannski stilla þessa hluti aðeins betur saman. Síðan finnst mér líka nauðsynlegt að þeir sem vinna að þessu í ráðuneytinu og eru embættismenn hafi stuðning grasrótarinnar, þess fólks sem er að vinna í listum og menningarstarfsemi á Íslandi. Frv. gengur út á það að kalla sérstaklega til fulltrúa listgreinanna og það er lögð á það áhersla í frv. að það sé ekki bara t.d. segjum einn frá Sambandi ísl. myndlistarmanna heldur er gert ráð fyrir því að það kæmu fleiri fulltrúar myndlistargreinanna sem eru nokkrar, eins og menn þekkja. Þarna er líka gert ráð fyrir þeim möguleika að þessar menningargreinar og þessi starfsemi taki að einhverju leyti t.d. höndum saman við aðra íslenska aðila, eins og t.d. skólakerfið að einhverju leyti. Þannig að hér er verið að reyna að hafa áhrif til þess að skapa aukna hreyfingu og að því leyti erum við, ég og hv. 2. þm. Vestf., algerlega sammála.
    Ég reyndi að giska á það hversu miklum fjármunum er varið til kynningar á íslenskri menningu erlendis. Ég sé að beint á vegum ríkisins, í menntmrn., eru þetta 20--30 millj. Þegar maður horfir síðan á það sem fyrirtækin veita, eins og t.d. Mál og menning, eins og ég nefndi áðan, og svo stofnanirnar, eins og t.d. Sinfóníuhljómsveitin, og síðan norrænu sjóðirnir og svo auðvitað félög listamanna líka, þá er ég nokkuð viss um að hér væri hægt að tína saman upphæð sem er ekki langt frá eins og 300 millj. kr. ári eða svo. Það er allmyndarlegt og spurningin er fyrst og fremst um það, sérstaklega fyrir okkur sem eigum að sjá um að það sé vel farið með almannafé, en það er ekki síst hlutverk okkar sem hér erum, þá er skynsamlegt að reyna að stuðla að því eins og kostur er að það sé vel með það fé farið án þess að við séum að skipa fyrir um það í einstökum atriðum, sem ég tel rangt og ég tel það líka rangt að menntmrh. hafi einn það vandasama hlutverk að úthluta þessum fjármunum í einstökum atriðum. Þess vegna finnst mér að eigi að kalla þar til fleiri aðila.