Kynning á íslenskri menningu

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 11:23:30 (1648)


[11:23]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef sennilega ekki talað nægilega skýrt áðan. Það var ekki hugmynd mín að þessir aðilar sem ég nefndi færu að óbreyttu með þennan málaflokk, heldur að hann kæmi inn í og tengdist. Í þeim tilgangi er ég að nefna viðbótarfjárveitingu af lögbundinni fjárveitingu til Ferðamálaráðs, að vel mætti hugsa sér, nú þegar fjárlög eru í vinnslu, að eitthvað yrði tekið til viðbótar af þeim peningum sem Ferðamálaráð á samkvæmt lögum en fær ekki samkvæmt öðrum lögum sem sett eru og það yrði til starfsemi í tengslum við Ferðamálaráð eða jafnvel innan vébanda með sérstökum formerkjum. Og ég vil sérstaklega taka fram að ráðgjafarhópur sem nefndur er í 3. gr., ég tel að hann sé kannski lykilatriði að þessu, að íslensk menning verði kynnt af því fólki sem starfar við íslenska menningu og gerþekkir hana og hérna eru einmitt tilgreind mjög mörg sambönd og samtök, Rithöfundasamband Íslands, leiklistarráð, Tónskáldafélag Íslands, Félag ísl. tónlistarmanna, hljómlistarmanna, tónskálda og textahöfunda, Arkitektafélagið, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samband ísl. myndlistarmanna. Þetta er allt saman talið upp þarna ásamt fleirum. Ég held að þetta sé lykilatriðið, að þetta fólk sem starfar við menninguna, þetta fólk sem er að skapa menninguna og halda henni við, komi til liðs við þetta mál og að það komi fjármagn. Ég er ekki að tala um að íslenskri menningu verði gerð full skil með því fjársvelti sem nú er t.d. til Ferðamálaráðs og til landkynningar. Þrátt fyrir það að ferðamennskan skili okkur æ meiri gjaldeyristekjum þá virðist vera mjög lítill skilningur á þessu. Þess vegna fagna ég því að menning og kynning á íslenskri menningu erlendis er komin til viðbótar við þetta.