Kynning á íslenskri menningu

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 11:54:31 (1656)


[11:54]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka það að flutningsmenn þessa frv. hafa tekið vel undir þau rök mín að kynning á íslenskri menningu mætti gjarnan verða í víðtæku formi og ná yfir samfélag okkar bæði fyrr og nú. Hér var minnst á það sérstaklega að meginmenningarverðmæti okkar, megineign okkar, það sem stæði upp úr í raun og veru, væru fornbókmenntir Íslendinga og ég get að mörgu leyti tekið undir þetta. En ég vil þá taka það sérstaklega fram að fornbókmenntirnar eru sprottnar upp úr sameiginlegum menningararfi sem var varðveittur í munnlegri geymd og innan þess menningararfs eru t.d. lagatextarnir okkar fornu. Það er athyglisvert að ef þessir lagatextar eru lesnir ofan í kjölinn þá er að finna þar ótrúlegan fjársjóð af upplýsingum um daglegt íslenskt líf á miðöldum og ekkert af þessu er aðgengilegt. Ég ætla að taka dæmi. Ég ætla að leyfa mér að tefja þingið með því að taka eitt dæmi sem sennilega er úr Grágás, ég man nú ekki nákvæmlega hvort þetta dæmi er úr Grágás eða ekki og það fjallar um hvalveiðar fornmanna.
    Þar er að finna tvennt: Annars vegar lýsandi dæmi um daglegt líf Íslendinga til forna og hins vegar dæmi um það á hvern hátt menn unnu það þrekvirki að muna lögin, varðveita lögin í munnlegri geymd. Það stendur þar í lögunum: ,,Skothval virði skynsamir menn.`` Hvað þýðir nú þetta? Hvers vegna er þetta stuðlað? ,,Skothval virði skynsamir menn.`` Við erum að vísu með lögin rituð í því formi sem þau hafa geymst en víða í þessum ritaða texta er að finna leifar af ljóðaformi sem bendir til þess að Íslendingar hafi markvisst notað bundið mál til að varðveita lagasafn sitt þannig að fornyrðislagið er ekki eingöngu bókmenntalegt verkfæri heldur má leiða að því sterk rök að fornyrðislagið hafi verið lagalegt verkfæri líka til að halda við lögunum í munnlegri geymd. Minnumst þess að lagabálkurinn var allur sagður fram á þremur þingum. Þriðjungur lagabálksins var sagður fram af lögsögumanni á einu þingi sem stóð í tvær vikur og þrjú ár tók að fara yfir þennan lagabálk. Lögfróðir menn sátu kringum lögsögumanninn og fylgdust með að rétt væri með farið. Þannig voru þessi verðmæti geymd og þau hafa sennilega verið geymd að einhverju leyti í bundnu máli. En hvað er meira að finna í þessum forna texta? Þar segir: ,,Skothval virði skynsamir menn.`` Og hvað þýðir nú þetta? Hvað var skothvalur? Skothvalur var hvalur sem hafði verið skutlaður. Skynsamir menn voru náttúrlega sérfræðingar á þessu sviði og að virða var að meta til fjár. Það þurfti að meta skothvalinn til fjár.
    Menn skutu hval á þessum árum með skutli sem bar þingborið merki. Það eru ákvæði í fornum lögum sem segja að skot sé þingborið. Hvað þýddi það að skot væri þingborið? Það þýddi það í raun og veru að menn skutluðu hvalinn á hafi út, hvalurinn hljóp frá þeim, síðan rak hann á land og hvar sem á land rak þá var skutullinn vísbending um það hver ætti ákveðinn hlut í hvalnum vegna þess að skutlinum hafði verið þinglýst, hugsanlega á Alþingi Íslendinga. Þingborið skot var þinglýstur skutull og þannig er þetta sláandi dæmi um það hversu sérkennilegt og þróað þetta samfélag var sem við höfðum hér á miðöldum og hvernig það brást við af mikilli og þróaðri hugsun, hvernig það ætti að leysa sín daglegu vandamál m.a. með lagasetningu og m.a. með því að þinglýsa skutlinum. Það er hægt að fara yfir lagatextann með þessum hætti, virðulegi forseti, og tína þar hverja gersemina á fætur annarri og gera hana sýnilega í söfnum okkar og varpa ljósi á daglegt líf Íslendinga til forna sem var gagnmerkilegt og lagasafn okkar er mikill heimildasjóður um. En þetta hefur ekki verið gert. Ég vil minnast á þetta hér og nú vegna þess að mér finnst að það sem við eigum að varpa ljósi á séu ekki einungis hinar fögru listir heldur fyrst og fremst íslenskt samfélag í nútíð og fortíð, í öllu sínu flókna samspili, við eigum að varpa ljósi á þetta og þar er mikið verk óunnið.