Réttur verkafólks til uppsagnarfrests

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 12:16:28 (1659)


[12:16]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil eindregið taka undir þessa tillögu sem hv. 5. þm. Vesturl., Elínbjörg Magnúsdóttir, flutti hér svo skörulega áðan. Það er ekki vansalaust fyrir íslenska þjóð sem byggir afkomu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu hvernig við höfum búið að því fólki sem stendur undir þessari framleiðslu. Einkum og sér í lagi virðist landverkafólkið hafa verið haft út undan alla tíð og er sannarlega mál að linni.

Að það skuli ekki einu sinni njóta venjulegra mannréttinda um uppsagnarfrest er slík háborin skömm að við getum varla nefnt þetta kinnroðalaust.
    Það er líka háborin skömm að við skulum vera að draga svo lappirnar eins og raun ber vitni þegar við eigum að samþykkja ýmsar tillögur alþjóðastofnana sem varða velferð þjóðarinnar og þegnanna og þá ekki síst vinnumálastofnunarinnar. Ég legg til að þessi þáltill. verði samþykkt og það verði hið fyrsta farið að vinna samkvæmt henni. Það má engan tíma missa. Eins og fram kom í ræðu hv. flm. eru núna fram undan samningar og það er sannarlega mikilvægt að ákvæði um uppsagnarfrestinn og líka leiðrétting á þeirri 3. gr. laga frá 1979, sem hér hefur verið nefnd, verði komið á réttan grundvöll áður eða a.m.k. um leið og samningar verða gerðir.
    Það er stórmikilvægt að laga grundvöll þess lífs sem almenningur byggir á á Íslandi. Einn af þeim þáttum sem styrkja grundvöllinn er einmitt sá sem hér um ræðir. Við þurfum að hækka grunnlaun fólks en við þurfum líka að hafa það þannig að réttindi fólks sé ekki hægt að fótumtroða og teygja eins og einhverja skækla í allar áttir eftir því sem ráðamönnum og í þessu tilfelli vinnuveitendum hentar.
    Það er því mikilvægt að þessi þáltill. verði samþykkt hið fyrsta og ég vona að hún verði fljótt afgreidd í félmn. svo að þetta mál hljóti skjótan frama, bæði innan þings og í meðferð ríkisstjórnarinnar.