Réttur verkafólks til uppsagnarfrests

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 12:27:15 (1661)


[12:27]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil, eins og þeir sem áður hafa komið, þakka hv. þm. Elínbjörgu Magnúsdóttur fyrir að hafa flutt þetta mál. Það sýnir okkur hvað það er gott fyrir Alþingi Íslendinga að fá hér inn fólk, varamenn, sem koma beint úr atvinnulífinu og til okkar hinna sem kannski erum búin að vera hér, sum alla vega, helst til of lengi og þyrftum að fara í endurhæfingu út í atvinnulífið. Það er frískandi að fá þessa umræðu beint hér inn. Ég þakka hv. þm. sérstaklega fyrir mjög góða framsögu fyrir þessari þáltill. og hvetja til þess að hún verði samþykkt og við förum í þessa vinnu.
    Þegar ég fór að skoða þáltill. og hvað lá að baki lagasetningunni frá 1979 sem nefnd er hér, þá komst ég reyndar að því að 3. gr. laganna, þar sem er talað um tilefnislausar uppsagnir fólks eða rétt atvinnurekenda til þess að segja upp fólki vegna hráefnisskorts, er nær óbreytt frá 1957. Það segir sig sjálft að það er vissulega komin ástæða og þó fyrr væri að endurskoða þessa grein sérstaklega vegna þess að aðstæðurnar eru svo breyttar. Við vorum ekki með fiskmarkaði 1957 og reyndar eru þær forsendur sem greinin byggði á svo allt aðrar. En það er dálítið gaman samt að lesa þessi þingskjöl. Í athugasemdum við frv. þegar það er lagt fram 1957 segir, með leyfi forseta:
    ,,Það sýnist ekki skipta öllu máli hvort launþeginn fær laun sín greidd mánaðarlega eða hvort launin eru greidd vikulega eins og tíðkast um tíma- eða vikukaupsmann. Samband atvinnurekenda og launþega skiptir hins vegar mestu máli. Þegar samband þeirra er varanlegt árið út eða lengri tíma virðist eðlilegt að launþeginn eigi rétt á nokkrum fyrirvara ef atvinnurekandinn vill segja honum upp starfi.
    Sama máli gegnir um atvinnurekanda. Eðlilegt virðist að hann fái vitneskju um það með nokkrum fyrirvara ef slíkur launþegi óskar að láta af störfum hjá honum. Þegar slíkt varanlegt samband hefur skapast milli atvinnurekanda gefur það sjálfkrafa þá von að það muni vara áfram nema sérstakar aðstæður komi til. Hvor aðili um sig mun því jafnan vera illa undir það búinn að samband þeirra rofni fyrirvaralaust. Það þykir því eigi óeðlilegt að lögfesta gagnkvæman uppsagnarfrest í þeim tilfellum þegar samband atvinnurekenda og launþega er svo varanlegt að það sé órofið heilt ár eða meir.``
    Þetta eru rökin í greinargerð með frv. þegar það er lagt fram 1957. Ég fór yfir umræðuna og það er dálítið merkilegt að skoða hana því að hún er í raun og veru á sama grunni og hún er í dag. Síðan er aftur gerð breyting 1979 og í þeirri umræðu er mælt fyrir þessu frv. af þáv. félmrh., Magnúsi H. Magnússyni. Í þeirri umræðu tekur reyndar einn hv. þm. sem hér situr þátt, en það er hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Hann flytur þá ræðu um nákvæmlega þetta sama mál. Ef sú umræða er skoðuð þá er hún eins. Þarna er verið að tala um réttindi verkafólks og sérstaklega þeirra sem vinna í fiskvinnslunni og mér sýnist að miðað við umræðuna og miðað við þá framsögu sem við heyrðum áðan og þær staðreyndir sem við þekkjum úr þjóðlífinu sé staðan ekki miklu betri en hún var 1979 og jafnvel talað af heldur meiri virðingu um störf fólks sem vann þá við fiskverkun, í sjávarútvegi, en gert er í dag. Það hefur e.t.v. ekki verið eins algengt og maður heyrir reyndar í dag að í skólum landsins, og reyndar hafa mín börn upplifað það að ef þau hafa ekki lært og undirbúið sig í tíma þá hefur kennarinn jafnvel látið út úr sér: Ætlar þú að vera í fiskvinnslu alla þína ævi? Engu að síður eru þetta þau störf sem þjóðfélagið allt byggir á eins og reyndar hefur komið fram áður.
    Tillaga hv. þm. Elínbjargar Magnúsdóttur um endurskoðun laga um uppsagnarfrest sýnir okkur að við berum ekki þá virðingu sem til þarf fyrir undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, þeim atvinnuvegi sem allt byggir á. Ég tek heils hugar undir þessa tillögu og hefði reyndar viljað sjá það gerast að við afgreiddum hana fljótt hér í gegn og hún fái ekki sömu meðferð og svo margar þáltill. frá hv. þm. sem fara ár eftir ár til umfjöllunar í nefnd og liggja þar. Ég hvet hv. þm. til þess að stuðla að því að tillagan komi sem fyrst út úr nefnd, fái þar fljóta og skjóta afgreiðslu.
    Mig langar aðeins til þess að bæta við af því að hv. þm. Árni Johnsen nefndi aðeins bankastjórana áðan og launin og mismuninn og hvernig við metum störfin. Hráefnið sem um er talað í þessari tillögu og það sem snýr að fiskvinnslufólki er auðvitað fiskurinn. Um leið og verður samdráttur þar er fólki sagt upp. Hráefni bankanna eru peningarnir og efnahagur landsins. Þar er að vísu farin sama leið þegar samdráttur verður. Þá er dregið saman, útibúum lokað og opnunartími bankanna styttur, en á hverjum bitnar það? Ekki bankastjórunum. Það þarf ekkert að fækka þeim heldur þeim sem eru á lægstu launum. Það er dæmigert fyrir það ástand sem við upplifum í dag að þegar atvinnuleysi hefur aukist verulega þá bitnar það akkúrat harðast á þessu fólki og misréttið sem hefur aukist verulega samfara auknu atvinnuleysi. Það er enn meiri hætta á að réttur verkafólks sé fótumtroðinn þegar við búum við atvinnuástand eins og það er í dag í öllum stéttum en ekki hvað síst hjá fiskverkunarfólki.
    Ég vil enn og aftur þakka hv. þm. fyrir að leggja fram þessa tillögu og ræða þessi mál því oft var þörf en nú er nauðsyn.