Réttur verkafólks til uppsagnarfrests

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 12:48:51 (1665)


[12:48]
     Flm. (Elínbjörg Magnúsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir þeirra góðu undirtektir á þessu máli. Það var hv. 18. þm. Reykv. og á eftir honum talaði hv. 3. þm. Suðurl. og ég vil taka undir með honum þegar hann ræðir um þetta sem hluta af mannréttindum. Það er nefnilega nákvæmlega það sem það er. Þetta eru grundvallarmannréttindi. Við höfum náð langt á mörgum réttindasviðum í baráttu almenns launafólks, en þegar grundvallarrétturinn er ekki fyrir hendi þá verður hitt minna virði.
    Ég vil þakka hv. 4. þm. Suðurl. fyrir þá sögulegu upprifjun sem hún kom með hér áðan. Þetta var eitthvað sem ég ekki vissi, að þetta væri í rauninni svona gamalt mál, að við værum hér að fjalla um grein sem væri síðan 1957, en í raun á þessi 3. gr. eiginlega að taka yfir force majeure og force majeure gengur yfir allt atvinnulífið verði stór áföll eins og bruni, skipstap, hvaða fyrirtæki sem það er. Það getur verið saumastofa, það getur verið hvaða þjónustustofnun sem er. Verði slíkt áfall þá gildir það sama fyrir það fólk eins og aðra. En þegar menn fara að búa til force majeure úr eigin skipulagsleysi, að þeir axli ekki þá ábyrgð sem þeir eiga að bera sem atvinnurekendur um að skipuleggja sitt starf í fyrirtækinu, þá ganga menn fulllangt.
    Ég vil taka undir með hv. 4. þm. Suðurl. þar sem hún ræðir um skólanám og fiskvinnslu í samhengi. Ég held að við getum sjálfsagt mörg viðurkennt það með sjálfum okkur að nota þetta orðbragð eða þessa tilvitnun ef manni finnst börnin ekki sýna skólanáminu mikinn áhuga: Heyrðu, hvernig er það með þig, ætlar þú bara að vera í fiskinum endalaust? Og það er eins og mig minni að ég geti játað þessa sök á mig sjálfa með mína eigin dóttur á sínum tíma. En það er kannski alvarlegra sem ég varð vitni að í því frystihúsi sem ég vinn. Þar kom heill bekkur úr grunnskóla. Þar vorum við með 11 eða 12 ára börn, ég kann nú ekki að greina aldurinn nákvæmlega. Þar var verið að sýna börnunum þau störf sem þar voru unnin og síðan heyrðist einn kennarinn segja hátt og snjallt: ,,Ja, þetta bíður ykkar ef þið eruð ekki dugleg að læra.`` Þetta finnst mér öllu alvarlegra heldur en þó að maður reyni á eigin heimili, bak við veggi heimilisins, að nota þá tilburði sem við höfum í farteskinu til að hvetja eigin börn, en þegar þetta er grundvallarskoðunin kannski innan menntakerfisins þá er ekki von á góðu, að virðingin sé mikil þegar út er komið.
    Hv. 16. þm. Reykv. talaði hér um að vinnuhraðinn innan frystihúsanna væri ekki nógu mikill. Ég vil nú ekki taka undir þetta með honum. Við vinnum núna undir þrýstingi frá vélum. Það eru komnar þannig vinnslulínur í frystihúsin að hægagangur er ekki, það er ekki reynt að láta fiskinn duga út vikuna vegna þess að skipið sé að koma. Alvörufyrirtæki senda fólkið heim, borga því sitt tímakaup þar til skipið kemur að eða þá að menn reyna að ná sér í fisk á markaði. En það hefur aftur aukist víða um land og það er ákveðið landsvæði, sem ég sé í rauninni enga ástæðu til að draga upp hér, þar sem atvinnuástandið hefur verið notað til þess að gera ekki þann kauptryggingarsamning sem samningar kveða á um og byggist á 3. gr. laganna nr. 19/1979. Og hvað á fólk að gera í sjávarþorpi þar sem þetta er eini vinnuveitandinn? Ef menn ekki láta það hafa þennan kauptryggingarsamning þá verður það að búa við þetta. Þarna verður löggjafinn að koma inn í.
    Ég tek undir með hv. 4. þm. Austurl. að samanburður okkar við aðrar þjóðir er okkur verulega í óhag. Það er alveg synd og skömm að Ísland skuli, eins og það telur sig nú framarlega og skipta miklu máli í alþjóðaviðskiptum, að við skulum sitja svo aftarlega á merinni að ná ekki einum þriðja af meðaltali Norðurlanda hvað varðar samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
    Í fiskvinnslunni er þó kannski eitt atriði sem tekur öðrum atvinnugreinum fram, það er að þar gildir og ríkir jafnrétti launa milli kynja. Það er ekki neinn taxtamunur á því hvort þú ert karl eða kona. Það má kannski segja að eini munurinn sé að sumir karlmennirnir í fyrirtækinu vinna lengur, tækjamenn og aðrir slíkir. En yfirgnæfandi meiri hluti starfsfólksins eru konur og mér er ekki grunlaust um það að margir karlmenn hafi hækkað í launum við breyttar vinnsluaðferðir í frystihúsunum, við það að fara í hóppremíu með konunum. Og fiskvinnslan er einmitt líka sú atvinnugrein sem hefur verið hagstæðust konum við þann sveigjanleika sem greinin hefur veitt húsmæðrum. Það er ekki mikið vandamál í fiskvinnslunni yfir höfuð að fá leyfi vegna veikinda barna þó að þú sért búinn með þinn rétt sem tryggður er samkvæmt samningum, sem eru sjö dagar, þurfir að fara og sinna þínum erindum, þá held ég að fólk geti verið almennt sammála um það að þessi atvinnugrein hefur komið mjög vel á móti fólki í þessu tilliti. En það er þessi grundvallarréttur að þú sért metinn þannig að þú eigir þinn uppsagnarfrest, þú fáir ástæður fyrir honum, að við fullgildum ILO-samþykktirnar. Þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því. Þá er það komið hér og skuldbundið að menn segi ekki upp að ástæðulausu. En þetta er það grundvallaratriði og ég vil þakka þær góðu undirtektir sem þetta mál hefur fengið og ég held að ég geti farið heim í mitt hérað og til míns fólks sem kemur til með að hittast innan skamms, fiskvinnslufólk á öllu landinu, og ég vona að ég geti fært því þær fréttir að von sé á réttarbót því til handa.