Málefni Atlanta-flugfélagsins

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:00:04 (1671)


[14:00]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Þegar eitt helsta verkefni okkar samfélags í dag er að koma í veg fyrir það mikla atvinnuleysi sem hér ríkir, þá hljótum við að hrökkva við þegar heyrist af því að líkur séu á því að stórt fyrirtæki hafi jafnvel hugsað sér að flytja úr landi og leggja niður starfsemi sína hér á landi.
    Nú skal ég ekkert fullyrða um hvort svo verður en það er hins vegar alvarlegt mál þegar hafið er allsherjarverkfall í svo mikilvægri atvinnugrein. Hér er um mjög sérstakt fyrirtæki að ræða. Það býr við miklar sveiflur, það býr yfir mikilli sérþekkingu, það getur skapað mörg góð störf tímabundið, en það þarf að leita lags á alþjóðlegum markaði og grípa tækifærin þegar þau gefast þannig að sveiflurnar eru miklar. Hér er því um fyrirtæki að ræða sem þarf að haga sér líkt og gengur og gerist í okkar fiskveiðum og sjómennsku. Menn þurfa að róa þegar gefur en í annan tíma er lítið að gera.
    Aðeins 5% af fluginu tengist Ísland og það er staðreynd að þegar mest er um að vera hjá þessu fyrirtæki þá starfa þar allt að 300 manns og 60--65% af þeim eru Íslendingar.
    Ég tel að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða, sem er í senn mjög viðkvæmt. Í fyrsta lagi er hér um að ræða félag sem skapar fólki góðar tekjur sem annars hefði lítið ef það væri ekki fyrir hendi. Ég tel í öðru lagi að þetta félag hafi verulega vaxtarmöguleika á alþjóðlegum markaði og geti þannig styrkt samgöngukerfi Íslands til lengri tíma litið. Það er því ljóst að hugsanlegt brotthvarf þess skaðar samfélagið. Það getur líka haft veruleg áhrif á aðra sem vilja hasla sér völl hér á landi í atvinnustarfsemi og þess vegna ber að meðhöndla málið sem slíkt. Ég tel að það sé líka viðkvæmt fyrir verkalýðshreyfinguna að þurfa að blanda sér í mál sem þetta, þótt ég skilji það að verkalýðshreyfingin sé viðkvæm gagnvart atriðum eins og stéttarfélögum og mörgu fleiru. Hér eiga líka í hlut einstaklingar sem eru almennt hærra launaðir en gengur og gerist í okkar samfélagi og ég er þeirrar skoðunar að slíkir aðilar þurfi að vera varkárir að því er varðar rétt sinn því að hann er mikill þar sem hér er um mjög dýr atvinnutæki að ræða.
    Deila þessi er nokkuð sérstök að því leytinu til að hér er ekki um beint kjaramál að ræða. Það eru ekki uppi launakröfur heldur gengur deilan m.a. út á það að þarna eru tvö stéttarfélög, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, og það hefur verið dæmt löglegt af Félagsdómi. Hér blandast líka inn í svokölluð forgangsröðun á starfslista eða starfsaldurslisti sem er óvenjulegt í okkar samningum. Það er mjög óvenjulegt að aðilar hafi rétt til starfa eftir slíkri röð.
    Ég ætla ekki að gerast dómari í þessu máli. Það hafa þung orð fallið í fjölmiðlum. Ég tel það vera gott að hæstv. ríkisstjórn hefur blandað sér í málið og ég vildi því spyrja hæstv. félmrh.: Hvernig ætlar ríkisstjórnin sér að ganga fram í þessu máli? Telur hún rétt að skipa sérstaka sáttanefnd? Hæstv. samgrh. hefur lýst því yfir að hann telji verulegar líkur á því að niðurstaða náist skjótt í málinu. Ég ætla að vona að það sé rétt hjá hæstv. samgrh. því að mál sem þetta sem er komið í jafnmikla hörku getur orðið mjög skaðlegt ef deilan dregst.
    Ég vænti þess að hæstv. félmrh. geti upplýst hvort og hvernig ríkisstjórnin ætli sér að hafa afskipti af þessu máli því að ég vænti þess að með slíkum afskiptum megi ná fram lausn í málinu.