Málefni Atlanta-flugfélagsins

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:10:11 (1673)


[14:10]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram í umræðunum, þá hefur flugfélagið Atlanta unnið mjög merkilegt brautryðjendastarf í því að afla Íslendingum markaða á alþjóðlegum flugmarkaði. Að mörgu leyti má segja að þetta flugfélag hafi markað nýja kafla í íslenskri flugmálasögu á undanförnum árum. Störf þess eru ekki aðeins mikilvæg fyrir flugfélagið og það fólk sem vinnur að flugmálum á Íslandi heldur er mér kunnugt um það að þau samskipti sem fyrirtækið hefur átt við stjórnvöld og viðskiptaaðila í ýmsum mjög mikilvægum og vaxandi viðskiptalöndum í fjarlægum heimsálfum geta skipt mjög miklu máli fyrir aðgang Íslendinga að mörkuðum á þessum markaðssvæðum. Það er þess vegna mjög brýnt að þetta fyrirtæki geti í orðsins fyllstu merkingu haldið áfram að vera íslenskt fyrirtæki. Það er ekki aðeins hagsmunamál fyrir þá sem starfa að flugi á Íslandi. Það er líka hagsmunamál fyrir íslenskt atvinnulíf í víðtækum skilningi.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá tel ég að það eigi að vera unnt á næstu einum til tveimur sólarhringum að finna lausn í þessu máli. Mér er kunnugt um það að forustumenn verkalýðsfélaga sem hafa komið að þessu máli hafa unnið að því að finna lausn á málinu og ég er sannfærður um að sú vinna þeirra er að skila mjög mikilvægum árangri. En þá er líka nauðsynlegt að þeir aðilar sem hafa átt í þessari deilu sýni skilning á því að það er farsælast að leiða hana til lykta, en haldi henni ekki til streitu með því að finna ný og ný ágreiningsefni. Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri til þess að skora á alla hlutaðeigandi aðila að finna lausn á málinu og ég er sannfærður um það eftir viðræður mínar við forustumenn verkalýðsfélaganna sem að þessu máli koma að það á að vera unnt annaðhvort á þessum sólarhring eða hinum næsta.