Málefni Atlanta-flugfélagsins

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:14:59 (1675)


[14:14]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það sem fram hefur komið hér að málið er flókið, ekki síst vegna þess að þarna stangast í rauninni á hagsmunir þeirra sem vilja gæta þess að atvinna hverfi ekki úr landi og svo hins vegar þau grundvallarmannréttindi að hafa leyfi til að fara í löglegt verkfall. Ég hef dálitlar efasemdir eða réttara sagt áhyggjur vegna þess að hæstv. félmrh. sagði að ríkið mundi að þessu sinni ekki fara í málið en e.t.v. á seinni stigum. Ég vona að það sé vegna þess að það sé vilji til þess að semja en ég óttast að þetta geti orðið þrátefli vegna þessara ólíku hagsmuna, sem báðir eiga fullan rétt á sér. Það eru grundvallarmannréttindi að mega fara í löglegar vinnudeilur hvort sem menn eru sammála þeim sjónarmiðum sem þar koma fram eða ekki. Við erum hins vegar stundum að eiga við einhvers konar grá svæði, hversu stór má sá hópur vera, sem getur haft mikil áhrif? Við höfum margoft staðið frammi fyrir þessu, m.a. í Herjólfsdeilunni miklu. En ég held að þessi réttindi séu einfaldlega of mikilsverð til þess að það megi fórna þeim.
    Hins vegar koma svo ótvíræðir hagsmunir varðandi atvinnumál og ég held að það séu hagsmunir sem allir eru sammála um að við höfum ekki efni á að fórna. Þetta mál eins og það stendur nú verður ekki leyst nema með víðtæku samstarfi og einurð allra þeirra sem að koma að þeir ætli að leysa þetta mál.
    Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hver sé að beita hvern þvingunum. Ég býst við það sé um ákveðið slíkt að ræða af beggja hálfu en stór orð eru einfaldlega ekki tímabær. Hér tapa allir ef ekki verður samið og það strax.