Málefni Atlanta-flugfélagsins

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:18:48 (1677)


[14:18]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt sem hér hefur komið fram og þar á meðal það að ég óska þessu fyrirtæki, Atlanta, allra heilla og vænti þess að það geti starfað hér á landi í sátt við launafólk. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að vekja athygli á því að samningaviðræður aðila vinnumarkaðarins þurfa almennt að vera í samræmi við ákveðnar viðurkenndar samskiptareglur og það er ekki hægt að neita því að það er mjög óeðlilega að málum staðið þegar deila hefur staðið í heilt ár og er komin til ríkissáttasemjara að þá sé skyndilega stofnað lítið félag sem er klofið út úr því félagi sem á í samningaviðræðum. Og enn frekar er það auðvitað mjög einkennilega og óeðlilega að málum staðið þegar svo þeir sem ekki vilja ganga í þetta nýja félag heldur eru áfram í gamla félaginu eru reknir úr störfum hjá fyrirtækinu. Þetta er auðvitað ekki gott til afspurnar og afskaplega eðlilegt að Alþýðusamband Íslands taki málið í sínar hendur og veki athygli á hvað þarna var að gerast. Mér finnst eiginlega helst vanta í þetta mál að Vinnuveitendasamband Íslands geri slíkt hið sama. Ég held að hinir stóru aðilar vinnumarkaðarins þurfi að taka í sameiningu á þessu máli. Það eru ákveðnar lágmarkskröfur sem verður að gera til allra samningsaðila, það eru ákveðnar samskiptareglur sem verður að virða og mér finnst að hinir stóru aðilar vinnumarkaðarins eigi að setjast niður og reyna að tryggja það að þetta mál komist í heila höfn.