Sala hlutabréfa í Lyfjaverslun Íslands hf.

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:41:30 (1685)


[14:41]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Einkavæðing Lyfjaverslunar ríkisins eins og hún hét þá var mjög umdeilt mál á Alþingi sl. vor. Þá tókum við kvennalistakonur þann pól í hæðina að leggjast gegn einkavæðingu fyrirtækisins eftir að hafa orðið vitni að mjög svo umdeildri sölu á SR-mjöli.
    Í hv. efh.- og viðskn. var farin sú leið þegar frv. var til umfjöllunar að heimila sölu á helmingi hlutabréfanna en að setja í lögin að leita yrði heimildar á Alþingi fyrir frekari sölu. Ég benti á það í umræðunni sl. vor að í þessu fælist lítil vörn því það þyrfti ekki annað en að leita heimildar á 6. gr. fjárlaganna og þar er þessa heimildarbeiðni nú að finna, liður 351. Við munum að vísu fá tækifæri til að ræða þetta mál þegar fjárlagafrv. kemur hér til frekari umræðu.
    Sú spurning sem vaknar við þessar fréttir sem hafa borist af sölu þessa helmings hlutabréfanna í Lyfjaverslun Íslands, eins og hún heitir nú, er hvort hér er um útsölu að ræða og hvert er hið raunverulega verðmæti fyrirtækisins. Erum við að verða vitni að enn einni tilrauninni til að bjarga einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar, eins konar örvæntingu einkavæðingarinnar? Ég ætla ekki að fara frekar út í þá sorgarsögu hér. Eða er hér um raunverulegt og eðlilegt verð að ræða?
    Það hefur verið staðið nokkuð sérkennilega að þessu máli og það ber hratt að. Það eru gylliboð sem fjmrn. setur fram. Það vakna auðvitað spurningar: Hver hefur efni á að kaupa? Hverjir eru kaupendurnir að fyrirtækinu? Er hér eðlilega að verki staðið?
    Hér er stuttur tími til að ræða þetta mál og ég held að við hljótum að leita frekari skýringa á meðferð þessa máls á hinu háa Alþingi.