Sala hlutabréfa í Lyfjaverslun Íslands hf.

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:43:48 (1686)


[14:43]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fullyrða hvort þessi hlutabréf voru seld á of lágu eða of háu verði en markaðurinn hefur a.m.k. tekið vel við þeim. Fyrst þau hafa selst öll á einum degi er það frekar vísbending um að verðið hafi verið tiltölulega hagstætt og kjörin þar af leiðandi verið mjög hagstæð.
    Ég studdi það á sínum tíma að farið væri út í þessa aðgerð og við lögðum á það áherslu í efh.- og viðskn. að um dreifða eignaraðild væri að ræða og eftir því hefur verið farið og að því leytinu hefur verið staðið við það samkomulag sem gert var. En þá var gert ráð fyrir því að aðeins helmingurinn væri seldur. Nú kemur hæstv. fjmrh. og segir: Ríkisstjórnin telur að það verði að selja hinn helminginn strax.
    Við stóðum að þessu máli í góðri trú um að þetta stæði. En það á greinilega ekkert að standa við það því nú á að ákveða að selja hinn helminginn strax.
    Við gengum til samkomulags í þessu máli vegna slæmrar reynslu af SR-mjöli. Við vorum þeirrar skoðunar í Framsfl. að það ætti að selja hlutabréfin í SR-mjöli á almennum markaði. Það var ekki gert. Þau voru seld fámennum hópi aðila. Það hefði betur verið staðið að öðruvísi og við vildum tryggja að upp væru tekin önnur vinnubrögð í sambandi við sölu á hlutabréfum ríkisins. Ég tel að salan sem hæstv. fjmrh. nefndi frá 1987 á hlutabréfum í Flugleiðum hafi ekki verið til mikillar fyrirmyndar enda var hún ákveðin af fjármálaráðherranum þáverandi einum og hann leitaði ekki ráða hjá öðrum í því sambandi.
    Ég vil óska eftir því við hæstv. fjmrh. að það verði staðið að þessu máli eins talað var um en ekki með allt öðrum hætti eins og mér heyrðist hann vera að segja hér áðan.