Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:53:06 (1690)

[14:53]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 95/1980, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum en þetta er 190. mál á þskj. 212.
    Frv. þetta var samið að frumkvæði stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, en í henni eiga sæti fulltrúar lífeyrissjóðasambandanna, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og fulltrúar ríkisins.
    Í frv. eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á lögunum um sjóðinn. Breytingar þessar lúta einkum að heimildum sjóðsins til að fjárfesta en hér er um tvenns konar breytingar að ræða í því sambandi.
    Annars vegar er lagt er til að sjóðurinn fái heimild til að fjárfesta í traustum erlendum verðbréfum sem skráð eru á opinberum verðbréfamörkuðum. Þetta er sams konar heimild og flestir lífeyrissjóðanna hafa haft um nokkurt skeið. Til að tryggja að sjóðurinn taki ekki of mikla áhættu á þessu sviði er gert ráð fyrir að heildareignir sjóðsins samkvæmt þessum tölulið verði ekki á hverjum tíma meiri en sem nemur 10% af hreinni eign sjóðsins til greiðslu lífeyris. Ef miðað er við reikninga sjóðsins á árinu 1993 fela þessi hlutföll í sér að heildareign sjóðsins í erlendum verðbréfum geti ekki orðið hærri en u.þ.b. 780 millj. kr. Til að tryggja að sjóðurinn kaupi verðbréf á markaðskjörum og að þau séu auðseljanleg er sett það skilyrði að viðkomandi bréf séu skráð á opinberum verðbréfamörkuðum í aðildarríkjum OECD.
    Þá er hins vegar lagt til að stjórn sjóðsins fái með bráðabirgðaákvæði heimild til þess að fjárfesta í víkjandi skuldabréfum, útgefnum af Speli hf., vegna gerðar Hvalfjarðarganga en viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð í desember sl. Í henni er fyrirvari þess efnis að ekki verði skrifað undir samninga um kaup á skuldabréfum nema heimild fáist til þess í lögum. Fjölmargir lífeyrissjóðir hafa undirritað slíkar viljayfirlýsingar og hefur reglugerðum nokkurra þeirra nú þegar verið breytt á þann hátt sem hér er lagt til. Eðlilegast þykir að heimildin sé í bráðabirgðaákvæði, þar sem hér er eingöngu verið að veita heimild til tiltekinnar fjárfestingar. Loks er lagt til í 2. gr. frv. að þegar sjóðfélagi hafi öðlast aðeins óveruleg réttindi í söfnunarsjóðnum, sem ekki er hægt að sameina við önnur réttindi, þá sé stjórn sjóðsins heimilt að greiða þau réttindi út í einu lagi í samræmi við þær reglur sem við eiga hverju sinni. Sams konar regla og hér er lögð til hefur um langt skeið verið í reglugerðum sjóða sem starfa innan Sambands almennra lífeyrissjóða.
    Virðulegi forseti. Eins og heyra má á ræðu minni þá er fyrst og fremst verið að breyta lítillega lögum þessa sjóðs í samræmi við þær reglugerðarbreytingar sem hafa átt sér stað hjá öðrum sjóðum. Frv. er samið af stjórn sjóðsins en í stjórninni eru fulltrúar almennu lífeyrissjóðanna, fulltrúi frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og loks fulltrúi ríkisins.
    Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að hafa fleiri orð um þetta frv. en geri það að tillögu minni að málið verði sent hv. efh.- og viðskn. og verði vísað til 2. umr.