Kennsla í iðjuþjálfun

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 15:09:32 (1692)


[15:09]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er kannski ekki þörf á því að bæta mjög miklu við ágæta framsöguræðu hv. 1. flm. þessarar þáltill. Engu að síður finnst mér rétt að leggja aðeins orð í belg og fjalla dálítið um þetta mál sem ég held að sé hið þarfasta og merkasta og býsna mikilvægt fyrir okkar þjóðfélag og okkar heilbrigðiskerfi. Ég er sannfærður um að kennsla í iðjuþjálfun gæti orðið til þess að bæta á margan hátt þá þjónustu sem sjúkir fá í okkar þjóðfélagi og væri nauðsynlegt til þess að efla þessa starfsemi.
    Það er svo að mál af þessu taginu eiga sér oft býsna langan aðdraganda og ég vek athygli á því að á árinu 1973 var nefnd skipuð til þess að kanna möguleika á því að hefja kennslu í sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Niðurstaða þeirrar nefndar varð sú að það væri eðlilegt að hefja nám í sjúkraþjálfun fyrst en síðan, eftir 5--10 ár, væri rétt að nám í iðjuþjálfun mundi hefjast.
    Nú eru sem sagt liðin rúmlega 20 ár án þess að við höfum hafið kennslu í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands þrátt fyrir niðurstöðu þessarar nefndar og þrátt fyrir það, eins og fram kom í máli hv. þm. Kristínar Einarsdóttur, að önnur nefnd skipuð í tíð þáv. menntmrh. Birgis Ísl. Gunnarssonar hefði líka komist að því sama, að eðlilegt væri og skynsamlegt að hefja kennslu í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands.
    Það eru mjög mörg rök sem mæla með því að hefja þessa kennslu, m.a. þau að hér á landi eru bara starfandi 50 iðjuþjálfar og það er örugglega frekar varfærnislegt mat Iðjuþjálfafélagsins að það skorti 170 iðjuþjálfa til starfa hér á landi vegna þess að það er svo að í dag veigra læknar sér við því að vísa á þessa iðjuþjálfa vegna þess einfaldlega að þeir hafa ekki samning við Tryggingastofnun ríkisins. Þeir geta því ekki starfað utan stofnana. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þetta hefur orðið til þess að draga úr notkun á þeirri þjónustu sem iðjuþjálfar gætu ella veitt.
    Iðjuþjálfunin hefur á vissan hátt átt undir högg að sækja vegna þess að hér er um að ræða tiltölulega nýlegt fag. Mér hefur verið sagt að iðjuþjálfun eigi kannski rætur sínar að rekja aftur til fyrri heimsstyrjaldar og hér á landi hófst þessi starfsemi einungis fyrir 50 árum og stéttin er frekar fámenn. Allt þetta hefur valdið því að á vissan hátt hefur þessi grein átt undir högg að sækja og það hefur líka ríkt fáfræði í þjóðfélaginu um hlutverk þessarar heilbrigðisstéttar eins og fram kom í máli hv. þm. Kristínar Einarsdóttur. Það yrði örugglega liður í því að efla þessa grein að hefja skipulegt háskólanám í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands sem gæti gert það að verkum að fólk ætti betri aðgang að þessari þekkingu.
    Markmiðið með iðjuþjálfun hefur verið skilgreint það að gera fólk sjálfbjarga og sem virkast í þjóðfélaginu svo að það geti hugsað um sig sjálft og það markmið í sjálfu sér er auðvitað skynsamlegt út frá öllum sjónarhólum séð. Líka frá sjónarhóli þeirra sem eru að gæta ríkissjóðs vegna þess að það er ekki neinn vafi á því að þegar til lengri tíma er litið þá mun þetta verða til þess að spara fé. Ég vek m.a. athygli á því að einmitt sú staðreynd að iðjuþjálfar geta ekki starfað núna utan stofnana hefur orðið til þess

að mörg dæmi eru um það að sjúklingar eru útskrifaðir seinna af stofnunum og þeim er haldið lengur inni á ýmsum meðferðarstofnunum vegna þess að einungis þar geta þeir fengið þessa nauðsynlegu meðhöndlun iðjuþjálfans sem aftur á móti veldur því að kostnaðurinn við rekstur þessara stofnana er meiri og biðlistarnir á þessar stofnanir verður lengri. Þannig að hér mælir allt með því að á þessu verði breyting.
    Ég vil alveg sérstaklega vekja athygli á því að það er ekki líðandi og það er auðvitað ekki vansalaust hvernig að þessum málum hefur verið staðið að iðjuþjálfar hafa ekki fengið samning við Tryggingastofnun ríkisins sem gæti tryggt þeim það að þeir gætu starfað utan stofnana. Tilraunir til þess að koma á þessum samningum hafa staðið yfir að mér skilst í 20 ár og enn þá hefur ekki tekist að koma þessu saman. Ég held að það væri mjög mikilvægt að við reyndum að breyta þessu og Tryggingastofnun gerði samning við þessa heilbrigðisstétt eins og er í gildi við margar aðrar heilbrigðisstéttir í landinu þannig að þessi starfsemi sem núna fer fram inni á stofnununum gæti flust út, gæti verið hluti af heimahlynningu, gæti verið hluti af annars konar starfsemi utan þessara stofnana sem yrði þá örugglega ódýrari heldur en sú starfsemi er í dag.
    Ég vek athygli á því að svo sem eins og hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra þar sem fólk á kost á því að fá þjónustu iðjuþjálfa þá er allt að tveggja ára biðtími fyrir börn sem þurfa á þessari aðstoð að halda. Þetta er algjörlega ólíðandi ástand. Meginhluti af skýringunni er væntanlega það að þessi samningur milli Tryggingastofnunar og iðjuþjálfa hefur ekki komist á. En e.t.v. er líka skýringin sú að hér á landi er skortur á þessari fagþekkingu og þennan skort væri hægt að leysa með því að auka þekkinguna, auka menntunina, með því að taka upp þetta skipulagða nám.
    Núna er það þannig að ýmsar heilbrigðisstéttir eru að reyna að afla sér þessarar þekkingar sem skortir inn í heilbrigðiskerfið með viðbótarnámi þegar eðlilegt væri að þetta nám færi fram með skipulögðum hætti í Háskóla Íslands þannig að fólk gæti leitað eftir þessari þekkingu þar og við hefðum upp á að bjóða þekkingu fullmenntaðs fólks á þessu sviði eins og á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustu okkar.
    Þannig að allt finnst mér þetta hníga að því sama að þegar við skoðum þessi mál þá er það eðlilegt að hefja kennslu í Háskóla Íslands í iðjuþjálfun alveg eins og hefur verið lagt til tvívegis af stjórnskipuðum nefndum, síðast af nefnd hæstv. þáv. menntmrh. Birgis Ísl. Gunnarssonar.
    Það er rétt sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir vakti athygli á að þetta er ekki þannig að það þyrfti að hefja þessa kennslu alveg frá grunni. Margt af því sem mundi nýtast í þeirri kennslu er til staðar nú þegar í háskólanum þannig að um vissa samþættingu milli námsgreina gæti verið að ræða.
    Þess vegna held ég að það væri eðlilegt að lokinni vandaðri meðferð þingnefndar að þetta mál fengi afgreiðslu þannig að það væri hægt með skipulegum hætti að hefja undirbúning þessarar kennslu og efla veg og virðingu iðjuþjálfunar í landinu. Ég held að það fari vel á því að það gæti gerst á næsta ári þegar 50 ár eru liðin frá því að fyrsti iðjuþjálfinn kom til starfa hér á landi.