Kennsla í iðjuþjálfun

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 15:17:51 (1693)


[15:17]
     Gizur Gottskálksson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna sérstaklega þessari þáltill. um að tekið verði upp nám í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum Kristínu Einarsdóttur og Einari K. Guðfinnsyni varðandi það sem kom fram í máli þeirra um gagnsemi þessara hluta. Við þekkjum það sem störfum á heilbrigðisstofnunum að iðjuþjálfun er ákaflega stór og ríkur þáttur í því starfi sem þar fer fram. Ég vil líka taka undir það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Vestf. að það er ekki vansalaust að þessi stétt skuli ekki hafa samning við Tryggingastofnun ríkisins þannig að sú þjónusta sé ekki tiltæk fyrir utan veggi sjúkrahúsanna og heilbrigðisstofnana.
    Ég vil líka taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Kristínar Einarsdóttur um framkvæmd þessarar kennslu. Við vitum að það er mikil sóun sem hefur átt sér stað í háskólanum varðandi menntun heilbrigðisstétta. Fjöldatakmörkun í læknadeild gerir það að verkum að þar ónýtist nám í stórum stíl, fólk er þar upp í tvö ár eins og málum er nú háttað og að því loknu getur það ekki nýtt það nám, nái það ekki áfram í læknadeild, í annað nám innan heilbrigðisstéttanna. Ég held því að það sé mjög brýnt að þessu verði þar fyrir komið og líka að það verði gerðar nauðsynlegar breytingar í háskólanum eins og reyndar háskólarektor mér vitanlega hefur lagt til að það verði hægt að nýta námið sameiginlega fyrstu eitt eða tvö árin. Þá held ég að það væri hægt að koma fyrir með góðu móti námi í iðjuþjálfun án þess að það mundi kosta mjög mikið fé.