Almannatryggingar

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 15:24:59 (1696)

[15:24]
     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá að mæla fyrir þessum tveimur málum samtímis en þau eru svo samþætt að það er nánast ekki hægt að skilja þau að því þau fjalla um það sama, þ.e. lengingu fæðingarorlofs í níu mánuði. En vegna þess hvernig fæðingarorlofi er fyrir komið í lögum þá varða þau bæði lög um fæðingarorlof beint og einnig lög um almannatryggingar.
    Árið 1987 var gerð breyting á lögum um fæðingarorlof en fram að því hafði fæðingarorlof á Íslandi einungis verið þrír mánuðir. Allt frá því að fulltrúar Kvennalistans komu fyrst inn á Alþingi árið 1983

voru lögð fram frumvörp um breytingar á þágildandi lögum um fæðingarorlof, þ.e. um það að fæðingarorlof skyldi lengjast úr þremur mánuðum í sex. Þau frv. voru ekki samþykkt.
    Í því fyrirkomulagi sem Kvennalistinn gerði ráð fyrir höfðum við reiknað með því að konur fengju sín laun greidd í fæðingarorlofi eins og aðrir fá greitt í orlofum eins og sumarleyfi og það yrðu óbreytt laun til kvenna en það yrði ekki gert með þeim hætti sem síðan var samþykkt, þ.e. að um væri að ræða sérstakan fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga heldur væri um að ræða óbreytt laun eins og eðlilegt er að gert sé í orlofi. Það fyrirkomulag var hins vegar ekki samþykkt og árið 1987 var samþykkt á Alþingi frv. sem flutt var af þáv. ríkisstjórn. Þetta var í ríkisstjórnartíð Ragnhildar Helgadóttur, sem þá var menntmrh., en hún hafði frumkvæði að því að flytja stjfrv. á Alþingi sem var samþykkt vorið 1987. Í því frv. var gert ráð fyrir að fæðingarorlof lengdist úr þremur mánuðum í sex mánuði á þremur árum, þ.e. um einn mánuð á ári.
    Nú hefur þetta verið gildandi, þ.e. sex mánaða fæðingarorlof, í þessi ár síðan og nú er kominn tími til að taka næstu skref.
    Þessi tvö frumvörp sem ég mæli fyrir, sem eru annars vegar á þskj. 214 og hins vegar á þskj. 215, flytja allar þingkonur Kvennalistans. Þau gera ráð fyrir því að nú þegar verði fæðingarorlof sjö mánuðir en síðan, eins og gert er ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða, verði fæðingarorlofið frá 1. jan. 1995 átta mánuðir og síðan níu mánuðir frá 1. jan. 1996.
    Ég geri mér grein fyrir því að þetta er tiltölulega bratt, þ.e. að það lengist í sjö mánuði nú þegar þar sem ég býst við að það taki eitthvað lengri tíma heldur en fram að áramótum til að skoða þetta frv. en það má auðvitað endurskoða þessar dagsetningar ef nefndin kemst að því að það sé rétt að mæla með því að Alþingi samþykki þetta frv. þá sé eðlilegt að breyta þarna dagsetningum.
    Þetta frv. var fyrst flutt á 113. löggjafarþingi en varð ekki útrætt þá. Fyrsti flm. var Sigrún Jónsdóttir hv. þm. sem þá var varamaður á Alþingi fyrir Reykjaneskjördæmi. Frv. er nú flutt óbreytt að öðru leyti en því að einhverjar tölur hafa breyst.
    Á 117. löggjafarþingi, þ.e. sl. vor, var frv. endurflutt. Það er endurflutt ekki síst vegna þess að þá var í umræðunni í þjóðfélaginu heilmikið talað um lengingu fæðingarorlofs. Það voru mjög margir sem urðu til þess að tala um að nú væri kominn tími til þess að lengja fæðingarorlofið úr sex mánuðum í níu mánuði.
    Ég man sérstaklega eftir því að í Reykjavík var þessi umræða mjög hávær. Árni Sigfússon, þáv. borgarstjóri í Reykjavík, talaði sérstaklega um þetta fyrir kosningarnar í vor, að það væri mjög nauðsynlegt að lengja fæðingarorlof og vorum við kvennalistakonur honum innilega sammála. Að vísu kemur þetta óverulega ef nokkuð inn á borð borgarstjórnar nema það þyrfti að greiða þeim starfsmönnum sem eru ráðnir hjá borginni lengra fæðingarorlof ef um þetta væri að ræða en að öðru leyti eru þetta náttúrlega mestmegnis aðrir, eða ríkið, sem mest koma að þessu máli.
    En skilningurinn og áhuginn virðist vera til staðar núna að reyna að gera eitthvað til að lengja fæðingarorlof. Þannig að það er auðvitað meginbreytingin og aðalbreytingin sem þetta frv. miðar við, þ.e. að lengja fæðingarorlof í níu mánuði.
    En það er ekki bara það sem þetta frv. gerir ráð fyrir heldur er líka gert ráð fyrir því að allar konur hafi rétt á hvíldartíma í einn mánuð fyrir fæðingu. Eins og núgildandi lög gera ráð fyrir þá má hefja greiðslu fæðingarstyrks allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag en þá styttir það tímann eftir fæðinguna en það er mjög slæmt því að þegar konur sem eru eitthvað veikar fyrir fæðingu og þurfa hugsanlega að taka einhvern tíma fyrir fæðinguna eða eru eitthvað slappar þá væri enn þá meiri ástæða til að þær fengju allan sinn tíma en ekki klípa af honum eftir fæðinguna. Þannig að þessi tvö frv. gera ráð fyrir því að konur hafi þennan ótvíræða rétt og það þurfi bara læknisvottorð til að staðfesta hvenær reiknað er með fæðingunni og síðan geta þær tekið mánuð á undan. Ef þær eiga hins vegar fyrir tímann þá fellur bara niður sá réttur en þær fá fullt fæðingarorlof eftir fæðinguna, þ.e. sjö, átta og upp í níu mánuði eftir að lögin eru að fullu komin til framkvæmda ef samþykkt verða.
    Það eru mjög margir fæðingarlæknar og ljósmæður sem hafa bent á að þetta sé mjög mikilvægt atriði. Það eru margar konur sem koma í fæðinguna mjög þreyttar, þær eru búnar að vinna mikið og það gerir fæðinguna oft erfiða þegar þær koma kannski beint úr vinnu, margar hverjar auðvitað með fjölskyldu og hafa tvöfalt vinnuálag, þannig að það sé eðlilegt að þær fái einn mánuð áður. Þetta atriði er því nýmæli að því er varðar tímann fyrir fæðingu.
    Það sem er líka nýmæli í þessu frv. og breyting frá gildandi lögum er að fleirburamæður fái tvo mánuði fyrir fæðingu til hvíldartíma, þ.e. tveimur mánuðum fyrr og að fyrir hvert barn umfram eitt fái konur þrjá aukamánuði, þ.e. ef það eru tvíburar þá sé um að ræða að þær fái 12 mánuði en ef það eru þríburar þá bætist þrír mánuðir þar við og ef það eru fleiri, eða fjögur börn sem er reyndar mjög sjaldgæft, þá séu það aftur þrír í viðbót við það.
    Þetta tel ég mjög mikilvægt. Meðganga með fleiri en eitt barn er í flestöllum tilvikum miklu erfiðari en ef um eitt barn er að ræða. Ég held að allir hljóti að geta skilið það. Síðan þurfa konur oft lengri tíma sjálfar eftir fæðinguna og auðvitað er miklu erfiðara að sinna tveimur börnum. Þau þurfa meiri tíma, það þekkja allir að tvö börn vakna ekki endilega á sama tíma þannig að oft og tíðum verður svefntíminn styttri og erfiðleikarnir miklu meiri ef um tvö börn er að ræða heldur en eitt.

    Til að gera sér einhverja grein fyrir umfangi þessa þáttar þá eru um 40 tvíburafæðingar hér á landi á hverju ári þannig að það eru svo sem ekki mjög mikil ósköp sem bætast þarna við af mánuðum ef við hugsum um hvaða kostnað þetta muni hugsanlega geta haft í för með sér.
    Það eru tvær til þrjár þríburafæðingar á ári og fjórburar hafa einungis fæðst tvisvar sinnum svo vitað sé hér á landi svo að þetta eru engin ósköp sem við erum að tala um en ég tel það vera mjög mikilvægt að við tökum sérstaklega tillit til fleirburamæðra.
    Einnig er gert ráð fyrir því í þessum frumvörpum að ættleiðandi foreldrar, þeir sem taka að sér börn hvort sem það eru ættleiðandi-, uppeldis- eða fósturforeldrar, fái jafnlangt fæðingarorlof og aðrir foreldrar. Þetta finnst mörgum kannski svolítið sérstakt að það þurfi jafnlangan tíma. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að þegar fólk tekur að sér börn þó að konan þurfi ekki sjálf að ganga í gegnum meðgöngu og fæðingu þá er oft enn þá mikilvægara að foreldrar sem taka að sér börn fái tækifæri til þess að mynda tengsl við þau börn þannig það getur oft þurft einmitt lengri tíma til þess að aðlagast, bæði fyrir barnið og foreldrana, ég tala nú ekki um ef börnin koma eitthvað aðeins eldri en nýfædd eins og mjög algengt er. Það þarf því ákveðinn tíma og oft ekkert minni tíma en þegar um er að ræða líffræðileg börn viðkomandi fólks og það þarf að gera þeirra rétt jafnmikinn.
    Ég held að ég þurfi ekki að hafa mjög mörg fleiri orð um þessi frv. svo greinilegt og skýrt sem ég tel þetta vera. Með frv. um breytingar á almannatryggingum fylgir nokkuð löng og ítarleg greinargerð sem ég ætla ekki að gera annað en að vísa sérstaklega til. Ég tel óþarfa að ég sé að lesa frekar upp úr henni en vil þó leggja áherslu á að þarna er um að ræða fimm aðalatriði sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e. svo ég taki það saman þá er í fyrsta lagi um það að ræða að fæðingarorlof verði lengt um þrjá mánuði eftir fæðingu. Í öðru lagi að mæðrum sé tryggður hvíldartími fyrir fæðingu. Í þriðja lagi er lagt til að fleirburamæðrum séu tryggðir tveir mánuðir fyrir fæðingu og þrír mánuðir eftir fæðingu. Í fjórða lagi er lagt til að fæðingarorlof til ættleiðandi foreldra, uppeldis- og fósturforeldra sé lengt í áföngum til jafns við fæðingarorlof annarra foreldra. Í fimmta lagi verði veitt heimild til þess að foreldrar geti dreift greiðslum fæðingarorlofs eftir ákveðnum tíma þannig að hægt sé að lengja fæðingarorlofið á þann hátt ef foreldrar kjósa það. Ég gleymdi að gera grein fyrir því og það er reyndar nauðsynlegt að það er gert ráð fyrir því í þessu frv. líka að eftir þrjá mánuði geti foreldrar valið um það að fá hálfan styrk og hálfar greiðslur og lengt fæðingarorlofið sem því nemur. Þessi heimild er núna varðandi ríkisstarfsmenn, þ.e. þeir geta eftir þrjá mánuði dreift greiðslunum og lengt fæðingarorlofið og mér er kunnugt um að það eru nokkrir sem nota þetta og telja þetta mikilvægt og það er lagt til í þessu frv. að þessi heimild eigi að gilda um alla þannig að allir geti raunverulega lengt fæðingarorlofið sem því nemur.
    Á bls. 5 í frv. um almannatryggingar er tekið fram hvaða kostnað þetta mundi hugsanlega geta haft í för með sér. Þar segir m.a. í upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins að það voru 5.500 sem fengu greiddan styrk í fæðingarorlof árið 1993. Þar af voru 17 karlmenn þannig að það eru allt of fáir karlmenn sem taka hluta af þessu orlofi enda er það svo stutt að það getur verið eðlilegt að það séu mjög fáir karlmenn sem taka fæðingarorlof vegna þess að það veitir ekkert af fyrir konur að taka þessa sex mánuði þannig að ef við hefðum fæðingarorlofið níu mánuði þá væru auðvitað miklu meiri líkur á að það væru fleiri karlmenn sem mundu taka fæðingarorlof.
    Varðandi einmitt það atriði þá vil ég taka fram að mér finnst mjög vel koma til greina að við höfum fæðingarorlof fyrir feður líka, þ.e. að þeir séu skyldugir að taka hluta af fæðingarorlofi einhvern tíma því að mér finnst að það sé nauðsynlegt fyrir feður að taka meiri þátt í uppeldi barnanna ef við getum kallað það uppeldi á þessu fyrsta ári og fyrstu árunum. Ein aðferð við það væri að láta karlmenn hafa möguleika á að taka fæðingarorlof og þá er ég að meina sjálfstæðan rétt þannig að lenging fæðingarorlofsins fari þá til foreldra. Þetta þarf hins vegar að útfæra nokkuð betur en ég vildi koma því að í tilefni af þessu.
    Eftir því sem næst verður komist þá eru heildargreiðslur vegna fæðingarorlofs áætlaðar 1.200 millj. á fjárlögum yfirstandandi árs eða u.þ.b. 100 millj. á mánuði. Þetta kostar því peninga eins og annað og menn geta deilt um hvort það er há eða lág upphæð. Ég tel að þarna sé ekki um háar upphæðir að ræða og það sé nauðsynlegt að núna verði það athugað alvarlega hvort alþingismenn eru tilbúnir til þess að lengja fæðingarorlofið, þ.e. taka næsta skref í lengingu fæðingarorlofs. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að ef við miðum okkur við önnur Norðurlönd þá erum við langt á eftir í þessum málum. Við getum auðvitað miðað okkur við einhver önnur lönd, t.d. Bretland sem hefur miklu styttra fæðingarorlof, en það viljum við ekki gera. Við höfum venjulega viljað miða okkur við Norðurlöndin og það tel ég að við eigum að gera í þessu máli. Þar er fæðingarorlof upp í 12 mánuði og möguleikar á enn þá lengra fæðingarorlofi, allt upp í 18 mánuði, ef fólk kýs svo. Þar eru líka ýmis ákvæði sem hvetja karlmenn til að taka fæðingarorlof sem ég tel að við eigum að skoða mjög alvarlega hér á landi að taka upp í okkar löggjöf. Við þurfum að taka okkur til og breyta lögunum um fæðingarorlof til þess að auka rétt, ekki bara barna og mæðra, heldur feðra líka.
    Að lokinni umræðu um þessi mál þá legg ég til að þeim verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.