Rannsóknarráð Íslands

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 15:59:19 (1698)

[15:59]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér hefur hv. 5. þm. Norðurl. e. mælt fyrir frv. til laga um Rannsóknarráð Íslands sem er mjög mikilvægt mál og þá á ég við þessa nýju stofnun. En það liggur við að mér sé svolítið skemmt. Ég skal ekki neita því. Í sjálfu sér má líta á þetta frv. og flutning þess af þremur hv. þm. Sjálfstfl. sem vantraust á hæstv. menntmrh. Það ber að skilja málið þannig.
    Nú sit ég í hv. menntmn. Alþingis þar sem við höfðum í fyrra til umfjöllunar frv. til laga um Rannsóknarráð Íslands og eins og hv. þm. nefndi þá komu ábendingar frá atvinnulífinu um það að frv. væri gallað í því formi sem það lá fyrir á síðustu dögum fyrir afgreiðslu Alþingis. Ég beitti mér fyrir því í hv. menntmn. að fá inn í frv. tillögu sem kom frá atvinnulífinu um lagatexta og við því var ekki orðið í hv. menntmn.
    Hv. formaður nefndarinnar taldi og fullyrti að textinn eins og hann leit út á því stigi málsins væri fullnægjandi og það væri ekki rétt eða ástæða til að ganga lengra. En hann hljóðaði eitthvað á þá leið að sjónarmið atvinnulífsins kæmu fram, að sjónarmiða atvinnulífsins yrði gætt.
    Hv. þm., Tómas Ingi Olrich, hreyfði engum mótmælum þar í nefnd svo aðrir nefndarmenn heyrðu, ekki skal ég fullyrða um hvað hefur komið fram í einkaviðræðum hans við hv. formann.
    Síðan lýsir hæstv. menntmrh. því yfir hvað eftir annað eftir að hann hefur skipað þessa stjórn að það sé engin ástæða til þess að hafa af því nokkrar áhyggjur að stjórnin sé skipuð eins og raun ber vitni, fyrst og fremst með prófessorum. Þannig að ég get ekki ímyndað mér að hæstv. menntmrh. styðji þetta frv. Ég veit ekki hvers vegna hv. þm. er að leggja það hér fram. Ef hvorki formaður menntmn. né hæstv. menntmrh. styðja málið þá er ekki líklegt að það nái fram að ganga á hv. Alþingi.
    Ég get hins vegar tekið undir það með hv. þm. og það er mikið rétt að atvinnulífið í heild sinni hefur lagt allt of lítið fjármagn til nýsköpunar og við Íslendingar höfum staðið okkur slælega á þessu sviði þó ekki sé meira sagt og þess vegna var það svo mikilvægt í fyrra þegar þetta mál var til umfjöllunar á hv. Alþingi að vel tækist til um löggjöfina. Við framsóknarmen studdum þetta mál. Það var ekki tekið meira tillit til þess jákvæða hugar gagnvart frv. í hv. menntmn. að mér tókst ekki að koma inn ákvæðum sem hefðu fyrirbyggt það að hv. þm. þyrfti nú að vera að flytja þetta mál. Þannig að sú reynsla kennir manni það að vera á varðbergi.