Rannsóknarráð Íslands

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 16:03:31 (1699)


[16:03]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. 3. þm. Norðurl. e., Valgerður Sverrisdóttir, hefði gott af því að skerpa örlítið minni sitt frá umræðum um þetta mál á þingi þegar það var til umfjöllunar. Af þeim sem

fjölluðu um málið við 1. umr. var aðeins einn þingmaður sem benti á þessa annmarka á frv. áður en umsagnir komu til. Það var aðeins einn þm. sem óskaði eftir því að þetta væri tekið sérstaklega til athugunar og fór sérstaklega fram á það við hæstv. menntmrh. að hann svaraði því hvort sér fyndist ekki ástæða til þess að marka með skýrari hætti aðgang atvinnulífsins að þessu máli. Þannig að ef þingmaðurinn ætlar sér eitthvert frumkvæði í þessu máli þá verð ég að segja honum að það átti hann ekki. Við 1. umr. málsins var það einn þingmaður í þessum þingsal sem benti á þetta og það var sá sem hér stendur.
    Að halda því fram, hv. þm., að sá sem hér stendur hafi ekki rætt þetta mál í menntmn. er fjarri öllum sanni. Þar ræddum við þessi mál. En það varð hins vegar niðurstaðan að breyta málinu eins og það var gert. Ég tek það fram að það var nokkur hraði á þessu máli, meiri hraði en góðu hófi gegndi þegar það var tekið í gegnum þingið og vafalaust má segja sem svo að einhver áhrif hafi þessi hröðu vinnubrögð í þinginu haft á framgang þessa máls.
    Ég mun koma að öðrum atriðum sem hv. þm. orðaði hér við betra tækifæri í þessari umræðu.