Minning Lúðvíks Jósepssonar

38. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:02:53 (1708)

[15:02]
     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Lúðvík Jósepsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, andaðist í sjúkrahúsi hér í Reykjavík föstudagskvöldið 18. nóvember áttræður að aldri.
    Lúðvík Jósepsson var fæddur í Nesi í Norðfirði 16. júní 1914. Foreldrar hans voru Jósep sjómaður þar, síðar á Eskifirði Gestsson sjómanns á Hrútseyri í Fáskrúðsfirði Guðmundssonar og Þórstína Þorsteinsdóttir bónda á Kirkjubóli í Norðfirði Bjarnasonar. Ólst hann upp í Neskauptúni hjá móður sinni og Einari sjómanni Brynjólfssyni. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og lauk þar gagnfræðaprófi vorið 1933. Var hann síðan kennari við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað 1934--1943 og starfaði við útgerð þar 1944--1948. Forstjóri Bæjarútgerðar Neskaupstaðar var hann 1948--1952. Við síðari alþingiskosningarnar árið 1942 varð hann landskjörinn alþingismaður, var í kjöri fyrir Sameiningarflokk alþýðu ---

Sósíalistaflokkinn í Suður-Múlasýslu. Upp frá því átti hann sæti á Alþingi samfellt til hausts 1979, á 41 þingi alls. Hann var landskjörinn þingmaður 1942--46, 1949--56 og 1959, þingmaður Sunnmýlinga 1946--49 og 1956--59 og þingmaður Austurlands 1959--79. Frá 1956 var hann kjörinn á vegum Alþýðubandalagsins. Hann var sjávarútvegs- og viðskiptamálaráðherra 1956--1958 og sjávarútvegs- og viðskiptaráðherra 1971--1974. Hann var formaður þingflokks Alþýðubandalagsins 1961--1971 og 1975--1979 og formaður Alþýðubandalagsins 1977--1980.
    Lúðvík Jósepsson var bæjarfulltrúi í Neskaupstað 1938--1970, forseti bæjarstjórnar 1942--1943 og 1946--1956. Hann var í samninganefnd utanríkisviðskipta 1944, í stjórn Fiskimálasjóðs 1947--1953, kosinn í togaranefnd 1954 og í milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum 1956. Hann var fulltrúi Íslands á alþjóðaráðstefnum um réttarreglur á hafinu 1958 og 1960 og á árunum 1975--82 og sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1969. Árið 1966 var hann kosinn í endurskoðunarnefnd laga um þingsköp Alþingis, var í stjórn Framkvæmdasjóðs 1966--1968, í stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs 1971--72 og kosinn í neyðarráðstafananefnd vegna eldgossins á Heimaey 1973. Hann var í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1957--71 og í bankaráði Landsbanka Íslands frá 1980 til æviloka.
    Lúðvík Jósepsson komst til fullorðinsára á krepputímum. Að loknu gagnfræðanámi hvarf hann að kennslustörfum í heimabæ sínum. Hugur hans beindist að stjórnmálum og um það bil sem hann náði tuttugu og þriggja ára aldri, í júní 1937, var hann í fyrsta sinn í framboði við alþingiskosningar í Suður-Múlasýslu. Fimm árum síðar var hann kjörinn á Alþingi og hélt síðan öruggu sæti hér á þingi á vegum sýslunnar og síðan Austurlandskjördæmis. Traustast og öflugast var þó fylgi hans og samflokksmanna í heimabæ hans, Neskaupstað, þar sem þeir höfðu jafnan forustu um stjórn kaupstaðarins og atvinnurekstur þar. Í þeim störfum sínum ávann Lúðvík Jósepsson sér víðtæka reynslu í sjávarútvegsmálum og viðskiptamálum og var því gjörkunnugur þeim málum þegar honum var falin forsjá þeirra í ríkisstjórn. Á ráðherraárum hans hið fyrra og síðara sinn var fiskveiðilandhelgin færð út í 12 og síðar í 50 mílur. Í afskiptum af hafréttarmálum á alþjóðavettvangi gat hann mælt af langri reynslu.
    Lúðvík Jósepsson var á þingferli sínum traustur málsvari og einn forustumanna í flokki sínum. Hann var fastur fyrir bæði í vörn og sókn, talaði rökfast og af þekkingu á högum lands og þjóðar. Hann lifði og starfaði á miklum breytinga- og framfaratímum þjóðarinnar og lagði þar fram starfskrafta sína á ýmsum sviðum. Hann bjó við góða heilsu fram undir hið síðasta, hafði þó hægara um sig eftir að hann hvarf af Alþingi. Við fráfall hans er á bak að sjá mikilhæfum forustumanni á vettvangi þjóðmálanna.
    Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Lúðvíks Jósepssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]