Störf landpósta

38. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:21:22 (1713)



[15:21]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er laukrétt hjá hv. þm. að vinnubrögð hafa verið að breytast, samgöngur hafa verið að batna. Sums staðar er það nú svo að einn póstur getur annast það sem margir gerðu áður og þessi þróun sem við hljótum auðvitað öll að fagna, að samgöngur batni, hlýtur ekki síst og m.a. að koma fram í störfum pósta og við dreifingu bréfa og böggla og því um líkt. Þannig að það væri að halda í gamlan tíma að fylgjast ekki með þróun að þessu leyti.

    Það er misskilningur hjá hv. þm. að svokallaðir pakkaflutningar frá fyrirtækjum, lyf og nú síðast birtingarvottorð og stefnur falli ekki undir almenna þjónustu póstsins. Það er nú svo að í gjaldskrá fyrir póstþjónustu er birt hvað þetta kosti og er á verksviði póstþjónustunnar hér í Reykjavík sem annars staðar og það svarar þá þeirri athugasemd sem hv. þm. gerði um þau efni.
    Það er ekki rétt hjá hv. þm. og misskilningur að Póstur og sími hafi ævinlega tekið lægsta tilboði, það er auðvelt að sýna dæmi um hið gagnstæða og er raunar hægt að benda á að eitt slíkt mál hefur legið fyrir Jafnréttisráði þar sem Póstur og sími var ákærður fyrir að hafa ekki tekið lægsta tilboði en fékk þar sýknu.
    Það er nú svo að pósturinn er að reyna að inna sína þjónustu af hendi með sem fullkomnustum hætti með sem minnstum kostnaði og er hægt að rekja mörg dæmi þessa. En það liggur líka fyrir að reynt hefur verið að sameina fleiri sjónarmið þar sem það er hægt, t.d. að nýta áætlunarferðir, hvort sem er í bílum eða í lofti til póstflutninga á meðan um nógu tíðar ferðir er að ræða. En á hinn bóginn eru líka uppi miklar kröfur um það að fjölga póstferðum í fimm í viku og þessi krafa veit ekki síður að þeim sem senda með póstinum heldur en hinum sem á móti taka og eru vissar alþjóðarlegar skuldbindingar fyrir hendi í þeim efnum.
    Ég vil að síðustu segja að ég er síður en svo andsnúinn því að þessi mál verði tekin upp aftur og endurmetin. Það er sjálfsagt að verða við því að stöðva útboð um sinn og að samstarfsnefndin fari yfir málefni landpósta. Mér finnst sjálfsagt að verða við þeirri beiðni hv. þm.