Hlutdeild áfengis og tóbaks í grunni framfærsluvísitölu

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:48:45 (1727)

[15:48]
     Björk Jóhannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Tóbaksneysla og þá fyrst og fremst reykingar er viðurkennt heilbrigðisvandamál. Mjög hefur dregið úr reykingum á Íslandi á undanförnum árum en nú bendir ýmislegt til þess að reykingar unglinga fari vaxandi að nýju. Kannanir á vegum héraðslækna og Krabbameinsfélagsins sýna að árið 1986 reyktu 9,2% 12--16 ára barna. 1990 hafði hlutfallið minnkað í 6,4% en er orðið 8,2% 1994. Á Suðurlandi reyktu 5,5% barna í þessum aldursflokki 1986, 4,2% 1990 en hækkar í 7,8% 1994.
    Við hljótum öll að vera sammála því að þetta sé uggvænleg þróun og viljum leita allra ráða til að snúa þessari þróun við. Bent hefur verið á að verðhækkun tóbaks sé mjög áhrifarík leið til að draga úr neyslu ásamt öflugu forvarnastarfi. Rannsóknir í Bretlandi, Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada hafa sýnt að hækkun tóbaksverðs um 10% dregur úr neyslu um 3--4% og áhrifin eru enn meiri meðal ungs fólks, allt að 6%.
    Íslenska ríkið rekur áfengis- og tóbaksverslun og ætti því að vera auðvelt að nota verðlagningu sem tæki til að draga úr neyslu tóbaks. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1995 er hins vegar ekki gert ráð fyrir verðbreytingum á tóbaki. Því er borið við að hækkanir á tóbaki mundi valda hækkun á framfærsluvísitölu og þar með auka verðbólgu. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands er framfærsluvísitalan byggð á neyslukönnun síðan 1990 og þar vegur tóbak 1,6% og áfengi einnig 1,6%. Þess má geta að barnaheimilisútgjöld og húshjálp vega aðeins 1,1%, fiskur og fiskivörur 1,1%, Póstur og sími 1,1% og skólaganga 1,4%.
    Virðulegi forseti. Það getur varla talist eðlilegur hlutur að mínu mati að áfengi og tóbak séu hluti af grunni framfærsluvísitölunnar því að þar með teljast þessi fíkniefni til nauðsynja í framfærslu hvers einstaklings á Íslandi. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands eftirtalinna spurninga:
  ,,1. Hvaða rök eru fyrir því að áfengi og tóbak eru hluti af grunni framfærsluvísitölunnar?
    2. Er fyrirhuguð endurskoðun á hlutdeild áfengis og tóbaks í grunni framfærsluvísitölunnar?
    3. Telur ráðherrann eðlilegt að verð á áfengi og tóbaki hafi áhrif á framfærsluvísitöluna?``