Reglur LÍN um nám foreldra fatlaðra barna

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:05:17 (1735)


[16:05]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Hv. þm. spyr í fyrsta lagi hvaða reglur gildi hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna um

heimildir foreldra fatlaðra barna til lengingar námstíma án þess að lánsréttur skerðist.
    Svar mitt er að á starfstíma Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafa engar sérstakar reglur gilt um svigrúm foreldra í námi sem eiga fötluð börn. Á hinn bóginn hefur jafnan verið tekið tillit til veikinda námsmanns, maka hans og barna. Í grein 2.32 í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 1994--1995 segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Heimilt er að víkja frá reglu 2.22 um að námsframvinda á hverju misseri skuli að lágmarki vera 75% af fullu námi ef námsmaður, maki hans eða börn veikjast.``
    Önnur spurning hv. þm. var hvort námsmenn sem eiga fötluð börn njóti sömu réttinda til lengds námstíma og fatlaðir námsmenn.
    Námsmenn sem eiga fötluð börn geta notið áðurnefndrar reglu sem ég las upp áðan um aukið svigrúm vegna veikinda þeirra en þeir njóta ekki nákvæmlega sömu réttinda og fatlaðir námsmenn. Ný regla var tekin upp í úthlutunarreglur skólaárið 1994--1995 um fatlaða námsmenn. Í grein 2.33 segir svo um það efni orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Geti námsmaður, vegna örorku sinnar, að mati lækna ekki skilað lágmarksárangri samkvæmt reglum sjóðsins er heimilt að veita honum 75% lán ef hann lýkur a.m.k. 50% árangri á hverju misseri. Ef hann lýkur innan við 50% árangri er heimilt að veita honum lán í hlutfalli við einingarskil.``
    Þá spyr hv. þm. að lokum hvort ég hyggist beita mér fyrir því að þessar reglur verði samræmdar. Þeirri spurningu svara ég þannig að almennar heimildir eru í reglum sjóðsins til þess að taka tillit til veikinda eða fötlunar barna í fjölskyldu námsmanna. Ég hef þær upplýsingar að stjórn sjóðsins hafi í þeim tilfellum að sótt hafi verið um slíkt og vottorð frá lækni hafi fylgt umsókn ávallt veitt námsmönnum svigrúm í samræmi við þær reglur.