Lán til náms í iðnhönnun

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:17:48 (1740)


[16:17]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta var satt að segja ómögulegt svar vegna þess að það vantaði eiginlega allt sem var spurt um. Hefur ráðherrann enga skoðun á þessu máli? Telur hann ekki eðlilegt að lánasjóðurinn veiti lán út á þetta nám eins og annað framhaldsskólanám sem þó stuðlar að sveinsprófi? Telur hann eitthvað í lögunum um Lánasjóðs ísl. námsmanna sem útilokar að það fólk sem er í námi í iðnhönnun fái lán til þess að stunda námið enda sé námsbrautin viðurkennd af ráðuneytinu?

    Ég sé satt að segja ekki að það sé neitt í lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna sem hindrar það að sjóðurinn láni því fólki sem stundar nám í iðnhönnun við Iðnskólann í Hafnarfirði eftir að menntmrn. hefur samþykkt þá námskipan sem þar er byggt á sem er vissulega mikilvæg forsenda.
    Ég vil spyrja ráðherrann í fyrsta lagi: Hvenær gerir hann ráð fyrir því að niðurstaða ráðuneytisins varðandi námskipunina liggi fyrir? Hvenær gerir hann ráð fyrir að þetta liggi fyrir?
    Í öðru lagi: Telur hann að það sé eitthvað í lögunum um Lánsjóð ísl. námsmanna sem hindrar það að sjóðurinn láni fólki til náms í iðnhönnun?
    Ég vil segja að lokum að ef svör hæstv. ráðherra eru þau að þetta sé allt saman óljóst enn þá eru það býsna alvarleg tíðindi fyrir þá tugi einstaklinga sem núna stunda nám í iðnhönnun við Iðnskólann í Hafnarfirði.