Fiskvinnsluskólinn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:31:00 (1746)


[16:31]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Auðvitað er dapurlegt að sjá hvernig þessum málum er komið hjá okkur. Þrátt fyrir allt talið um að efla starfsmenntun er ekki betur að því staðið en svo að loka þarf öðrum af tveimur fiskvinnsluskólum í landinu meðan verið er að skrifa enn eina skýrsluna og ljúka enn einu nefndarstarfinu um málið og það er auðvitað dauflegt.
    Ég vil einnig minna á það í þessu sambandi að víðar er rekin starfsemi á þessu sviði en í Hafnarfirði. Ég minni á Fiskvinnsluskólann á Dalvík og ég skora á hæstv. menntmrh. að muna eftir því starfi sem þar er unnið einnig í endurskipulagningu þessara mála og í tengslum við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um að efla Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið sérstaklega sem miðstöð fyrir rannsóknir og fræðslu á sviði sjávarútvegs.
    Í fiskvinnslubrautinni á Dalvík er m.a. valin sú skynsamlega leið að verklegi þáttur námsins fer fram úti í fyrirtækjum á svæðinu og það held ég að gæti verið mönnum fordæmi m.a. um það hvernig á að standa að þessum málum. (Forseti hringir.) Ég nota þetta tækifæri til að brýna hæstv. ráðherra á því að standa einnig vel við bakið á þeirri starfsemi sem þarna fer fram.