Fiskvinnsluskólinn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:33:45 (1748)


[16:33]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann gaf áðan. Ég skil hann þannig að það fáist botn í málið fyrir áramót, þ.e. væntanlega áður en fjárlög verða afgreidd fyrir árið 1995. Miðað við allar aðstæður tel ég að eftir atvikum sé nokkur árangur af fyrirspurnatíma að negla það fast þó það sé kannski ekki ýkja fast í hendi. En ég tel engu að síður mikilvægt og mun halda áfram að ganga eftir því.
    Hins vegar verður að segja alveg eins og er að það er nokkurt áhyggjuefni hvernig að þessum málum er staðið. Spurningin sem við hljótum að velta fyrir okkur hér er: Hver er stefna ráðuneytisins sjálfs í málefnum skólans? Er hún sú að tengja hann við framhaldsskólana í Hafnarfirði, við Iðnskólann í Hafnarfirði og Flensborgarskólann? Eða er hún sú að tengja hann við Vélskólann og Stýrimannaskólann? Eða er hún sú að tengja hann með einhverjum hætti við þá starfsemi sem fer fram í sjávarútvegsbrautinni við Háskólann á Akureyri?
    Ég tel að það þurfi að taka ákvörðun um það nákvæmlega hvar þetta nám á að vera. Ég tel að vandi Fiskvinnsluskólans hafi ekki síst verið fólginn í því að ákvörðun um það hvar þetta ætti að vera nákvæmlega hefur ekki verið tekin nægilega skýrt vegna þess að ályktanir Alþingis, m.a. um sjávarútvegsnám við Eyjafjörð, og ákvarðanir ráðuneytisins í seinni tíð í þessum efnum hafa stundum stangast á. Það skapar sérstakan vanda í því stóra máli sem hér er á ferðinni. Það er auðvitað til skammar að ganga frá hlutum öðruvísi en að Fiskvinnsluskólinn verði opinn á næsta ári og honum tryggð aðstaða til þess að hægt sé að stunda það nám sem viðunandi er m.a. frá sjónarmiðum sjávarútvegs okkar.