Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:38:32 (1750)

[16:38]
     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Á allmörgum undanförnum þingum hef ég verið 1. flm. að frv. til laga um stofnun sjóðs til að styrkja unga efnilega íþróttamenn. Það var reyndar þannig að þegar málið var fyrst lagt fram þá voru tæplega 30 meðflutningsmenn að málinu þannig að vilji og stuðningur þingsins við málið var alveg ljós. Engu að síður, af einhverjum ankannalegum ástæðum fékk málið ekki að koma út úr hv. menntmn. og var það endurflutt ár eftir ár og alltaf sat við sama, að hv. nefnd hleypti málinu ekki út, jafnvel þó að skýr þingvilji væri fyrir málinu. Því var þrautalending á síðasta þingi til þess að ná málinu þó út úr nefndinni að vísa því til ríkisstjórnarinnar. Segja má að það hafi verið fyrir þrautseigju og tilstuðlan hv. þm. Svavars Gestssonar að loksins hafðist sá áfangasigur í þessu máli ef svo mætti segja.
    Í framhaldi af þeirri afgreiðslu hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. menntmrh. á þskj. 231 sem er svohljóðandi:
    ,,Er fyrirhugað að stofna sjóð til að styrkja efnilega íþróttamenn í framhaldi af því að frumvarpi um slíkan sjóð, 268. máli 117. löggjafarþings, var vísað til ríkisstjórnarinnar 6. maí 1994?``