Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:43:40 (1752)


[16:43]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Reykv. fyrir elju hans og baráttu til þess að ná málinu fram. Hins vegar verðum við ýmsir þingmenn þreyttir á fallegum ræðum ráðherranna sem segja jafnan ,,kanna, skoða, rannsaka, setja á frest um sinn``. Það vantar viljann, því miður. Þess vegna skora ég á hæstv. menntmrh., sem á sennilega eftir nokkra mánuði í starfi, að gera þetta að alvöru því að enginn vafi er á því að íþróttastarfið og heilbrigð æska kemur í kjölfarið á sterkum íþróttamönnum á mörgum sviðum. Það á bæði við frjálsíþróttir, boltaíþróttir, skák, hestamennsku og svo víða. Við finnum áhrifin frá þessum sterku mönnum. Þeir eru lykillinn að því að vernda unga fólkið í landinu frá ýmsum hættulegum efnum sem er allt of mikið af. (Forseti hringir.) Þess vegna skora ég, hæstv. forseti, á menntmrh. að hann noti þann langa tíma sem hann á eftir til vorsins til þess að hrinda málinu í framkvæmd. (Forseti hringir.) Vilji þingsins er skýr.