Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:45:26 (1753)


[16:45]
     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans sem kalla að vísu á miklu lengra mál en tími gefur kost á. Ég vil fyrst segja að mér þykir ankannalegt að heyra úr ræðustól að ríkissjóður hafi verið að auka stuðning sinn við íþróttir í landinu. Það er þvert á það sem við sjáum þegar við opnum fjárlögin. Þar sjáum við að íþróttasjóður er lagður niður. Við sjáum að undanfarin ár hafa fjárframlög lækkað til íþróttahreyfingarinnar þannig að gegnumsneitt má segja að niðurskurður hafi verið til íþróttahreyfingarinnar sl. ár.
    Varðandi afrekssjóð ÍSÍ eru menn sýnkt og heilagt að rugla því saman sem eru afreksmenn og því sem hér er verið að tala um, sem eru ungir, efnilegir íþróttamenn. Það eru ekki afreksmenn. Þetta er sjóður sem á að stuðla að því að við búum til afreksmenn og það er mikill munur á því. Í þeim frumvarpsdrögum, sem hér voru lögð fram, var auðvitað gert ráð fyrir fullu samstarfi við íþróttahreyfinguna. Gerð var tillaga um stofnun sjóðsins og hverjir ættu sæti í nefndinni og þar voru að sjálfsögðu fulltrúar ÍSÍ, UMFÍ og annarra.
    Það skýtur líka skökku við eftir að hafa hlustað á svar hæstv. ráðherra að tala um íþróttalögin og vitna þar sérstaklega til íþróttasjóðs. Það er stefna ráðuneytisins í dag, sem birtist í fjárlagafrv., að leggja íþróttasjóðinn niður þannig að ég verð að segja að ég skil ekki svona málflutning nema maður megi leyfa

sér að gagnálykta og ég vona að ráðherra svari því að það eigi að breyta um stefnu og íþróttasjóðurinn eigi að fá að lifa. Þannig leyfi ég mér að túlka þau orð og þau svör sem komu fram áðan.