Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:49:27 (1755)

[16:49]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefur gengið í gildi fjöldi reglugerða sem gilda um svæðið allt. Ein þessara reglugerða felur í sér fyrirmæli um hvernig staðið skuli að merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla sem dreift er til neytenda. Reglugerð þessi er nr. 588 frá 31. desember 1993 og gildir frá þeim tíma, en í ákvæði til bráðabirgða segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fyrir matvæli sem eru hér á markaði við gildistöku þessarar reglugerðar og sem ekki eru í samræmi við ákvæði hennar er veittur eins árs frestur til að koma á nauðsynlegum breytingum. Hafi breytingar til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar ekki verið gerðar að þeim tíma liðnum er dreifing vörunnar óheimil.``
    Meðal þeirra atriða sem krafist er að framleiðendur uppfylli er að fram komi á vörum þeirra nafn og heimilisfang framleiðanda, pökkunaraðila eða dreifingaraðila sem aðsetur hefur á Evrópska efnahagssvæðinu. Hér er um að ræða kröfur sem ekki hafa gilt áður um innfluttar vörur og hljóta þær að valda umtalsverðum breytingum, bæði fyrir framleiðendur, dreifingaraðila og neytendur. Sú spurning hefur vaknað hvort þessi ákvæði skuli einnig gilda fyrir framleiðendur utan Evrópska efnahagssvæðisins. Reglugerðin kveður svo á í 1. gr. að ákvæði hennar skuli ekki gilda um matvæli sem ætluð séu til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins en engin ákvæði eru um að hún gildi ekki fyrir framleiðendur sem flytja vörur til svæðisins.
    Eins og kunnugt er er umtalsvert magn matvæla flutt til Íslands, t.d. frá Bandaríkjunum, og munu allt að 35 fyrirtæki annast þann innflutning. Fjöldi vörutegunda er jafnframt fluttur inn frá öðrum löndum. Það segir sig sjálft að lítið markaðssvæði eins og Ísland verður tæplega talinn svo góður viðskiptaaðili að framleiðendur leggi í verulegan aukakostnað fyrir það og víst er að varan yrði þá mun dýrari fyrir neytendur. Því verður ekki annað séð en áðurnefnd reglugerð reynist nokkur viðskiptahindrun fyrir ríki utan svæðisins og tæplega var það ætluninin með hinu margumtalaða viðskiptafrelsi sem samningurinn átti

að hafa í för með sér nema frelsið eigi einungis að gilda í lokuðu kerfi þeirra Evrópuþjóða sem samþykktu samninginn. Víst er að neytendur mundu sakna fjölmargra vinsælla vörutegunda sem unnið hafa sér sess á Íslandi og hafa verið á betra verði í mörgum tilvikum en evrópskar vörur. Nægir þar t.d. að nefna ýmsar tegundir af ungbarnamat sem við konur könnumst harla vel við. Ég hef því leyft mér, hæstv. forseti, að senda inn fyrirspurn sem liggur hér frammi á þskj. 140 og hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Gildir reglugerð nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla á Evrópska efnahagssvæðinu einnig um vörur sem framleiddar eru utan svæðisins þar sem aðrar reglur gilda?
    2. Sé svo, hver áhrif hefur það á samkeppnisstöðu og vöruverð?``