Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:54:03 (1757)


[16:54]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Það hefði verið lágmark að segja fyrirspyrjanda frá því að meiningin væri að svara báðum spurningunum í einu en mér er ekkert að vanbúnaði.
    Hæstv. forseti. Með reglugerð nr. 586 frá 30. desember 1993 hafa gengið í gildi nýjar reglur um upplýsingar um næringargildi innfluttrar matvöru. Í reglugerðinni er sams konar ákvæði til bráðabirgða um eins árs frest til að framleiðendur og dreifingaraðilar geti aðlagað sig hinum nýju reglum og rennur sá frestur út um næstu áramót. Af sömu ástæðum og komu fram í fyrri ræðu minni gæti samkeppnisstaða ríkja utan Evrópusvæðisins skaðast verulega þar sem allt aðrar reglur gilda um innihaldsmerkingar í þessum ríkjum. Svo að dæmi sé tekið skal efnainnihald miðað við 100 gramma einingu eða í skömmtum ef 100 gramma grunnlýsing kemur einnig fram en sé aftur litið til t.d. Bandaríkjanna tíðkast þar annars konar merkingar.
    Eins og áður er á minnst eru menn uggandi um að smæð markaðarins hindri að framleiðendur fari að sérmerkja vörur, sem fluttar eru til Íslands, en nokkuð er um að vörur sem fluttar eru hingað frá Bandaríkjunum séu ekki á markaði víða í Evrópu. Hér gætu hagsmunir íslenskra neytenda verið í húfi og því hef ég lagt fram fsp. til hæstv. umhvrh. sem liggur frammi á þskj. 141 og hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Gildir reglugerð nr. 586/1993 um merkingu næringargildis matvæla á Evrópska efnahagssvæðinu einnig um vörur sem framleiddar eru utan svæðisins þar sem aðrar reglur gilda?
    2. Sé svo, hver áhrif hefur það á samkeppnisstöðu og vöruverð?``
    Nú er fyrirspyrjanda einungis ljúft að hæstv. ráðherra svari báðum fyrirspurnunum í einu.