Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:06:47 (1762)


[17:06]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það eru líka ánægjuleg tíðindi að hlusta á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur berjast svo hart fyrir innflutningi og honum sem mestum frá Ameríku. Öðruvísi mér áður brá, en eins og hv. þm. sagði þá er hún að sjálfsögðu þingmaður allra Reykvíkinga, líka þeirra sem unna henni Ameríku.
    En hvað um það. Þær merkingar sem hér er verið að ræða um eru settar í einum tilgangi: Til þess að tryggja öryggi og rétt neytenda, og til þess eins. Þar höfum við Íslendingar ekki sérlega glæsilega fortíð, því í þeim efnum, í neytendavernd, má taka undir með nóbelsskáldinu sem sagði að upphefð vor komi að utan. Í neytendaverndarmálum hefur upphefð Íslendinga öll komið frá hinu Evrópska efnahagssvæði því við fórum ekki að gera alvarlegt átak í málefnum neytenda fyrr heldur en fjölþjóðlegir samningar neyddu okkur til þess. Þetta er einn þátturinn þar í, að auka öryggi neytenda með því að samræma upplýsingar sem gefnar eru neytendum þannig að íslenskir neytendur gangi ekki að því gruflandi hvaða vörur þeir hafi á milli handanna.
    Það hefur því miður borið við og þá er ég ekki endilega að nefna dæmi úr matvælaiðnaðinum heldur t.d. úr byggingariðnaði, að það hafa verið fluttar inn vörur og seldar hér á landi, t.d. steypustyrktarstál og steypustyrktarjárn, sem alls ekki hefur þolað þær kröfur sem gera á til þessara byggingarefna í byggingareglugerðum. Með öðrum orðum, þarna hefur vantað allar skráðar upplýsingar um vörugæði og efnainnihald viðkomandi vöru. Þetta þekki ég mjög vel af ferðum mínum hringinn í kringum landið þar sem kvartað hefur verið yfir því hvað við Íslendingar séum aftarlega á merinni í þessum efnum.
    Auðvitað verður það svo að þegar tvö stór og voldug efnahagssvæði eins og Bandaríki Norður-Ameríku annars vegar og lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins hins vegar, eru bæði tvö að setja sér reglur um samræmingarmerkingar á vöru og að þau starfa ekki saman að því heldur sé hætt við að þau séu að vinna það sitt í hvora áttina, að það verði þar ruglingur á. En ég er sannfærður um að með sama hætti og evrópsk fyrirtæki, sem ætla sér að flytja vörur inn á Bandaríkjamarkað, munu uppfylla kröfur bandarískra laga um merkingar er sýna bæði vöruverð og vörugæði og vörusamsetningu, að þá munu bandarískir framleiðendur, sem ætla að selja inn á Evrópumarkað, gera slíkt hið sama. Í mörgum tilvikum er hin bandaríska vara auk þess keypt af evrópskum heildsala eða dreifingaraðila þannig að þá er þegar búið að merkja vöruna fyrir hinn evrópska markað. En auðvitað hlýtur það að vera takmarkið og verður væntanlega að því stefnt í samvinnu þessara tveggja voldugu markaðssvæða, að samræma sem mest reglur um merkingar sín á milli. Á meðan það er ekki gert þá geta komið upp framkvæmdaörðugleikar eins og þeir sem menn hafa rætt hér um og umhvrn. hefur tekið það fram og hefur óskað eftir samstarfi við heilbrigðiseftirlit, innflytjendur og innlenda framleiðendur um hvernig á skuli taka og ég hef ekki trú á öðru en því að það takist þarna gott samstarf um að leysa þá hnökra sem upp kunna að koma í þessu efni.