Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:10:37 (1763)


[17:10]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Mér þótti hæstv. viðskrh. heldur betur taka innan úr sjálfum sér áðan þegar hann fullyrti að það hefði ekki myndast vilji fyrir því að auka neytendavernd á Íslandi fyrr en farið var að tala um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Það kann vel að vera að ýmis mál hafi komið þar upp sem voru til bóta, en það er rétt að minna á það að það voru fjölmörg atriði tekin fyrir og var full samstaða í þinginu um breytingar á þessum hlutum þannig að það þurfti ekki að tengja það samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Hins vegar, ef menn eru að tala almennt um hagsmuni neytenda, þá er kannski rétt að minna á það að með þessum samningi ákváðum við það t.d. að iðnaðarvörur fluttar inn frá Ameríku yrðu tollaðar 7% hærra heldur en frá hinu Evrópska efnahagssvæði. Ef það eru hagsmunir neytenda sem menn hafa í huga þegar þeir múra sig innan tollmúra eins og ríkisstjórnin ákvað að gera með þeim frumvörpum sem lögð voru fram og samþykkt hér á hv. Alþingi, þá held ég að menn séu á villigötum.