Veðurathugunarstöð á Þverfjalli

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:17:35 (1767)


[17:17]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég þori ekki að fara með það hvenær þessi fyrirspurn var lögð fram og hvort óeðlilegur dráttur hafi verið á að svara eins og hv. þm. gaf í skyn. En ég get fullvissað hann um að það að fyrirspurnin var lögð fram skipti engu máli í sambandi við það mál sem fyrirspurnin snýst um þannig að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim þætti málsins.
    Vegagerðin svarar fyrirspurn hv. þm. svo:
    ,,Vegagerðin á og rekur nokkrar veðurathugunarstöðvar á landinu. Þessar stöðvar eru settar niður á þeim stöðum við vegi landsins sem öðrum fremur eru háðir veðri. Þessar stöðvar mæla vind, hitastig og raka og veita þannig mikilvægar upplýsingar um færð og akstursskilyrði á viðkomandi vegaköflum. Vegagerðin nýtir þessar upplýsingar til að skipuleggja sínar aðgerðir og enn fremur til að miðla vegfarendum betri upplýsingum. Til að koma upplýsingum enn betur og fljótar til vegfarenda voru upplýsingar frá veðurstöðvunum settar í textavarp sjónvarpsins á sl. ári. Geta vegfarendur þar með sjálfir lesið upplýsingar frá þeirri veðurstöð sem við á og metið aðstæður út frá því. Er þetta einkum til mikilla þæginda fyrir þá sem fara oft um viðkomandi leið.
    Auk þeirra stöðva sem Vegagerðin á sjálf er veðurstöðin á Þverfjalli, milli Skutulsfjarðar og Önundafjarðar, sem er rekin af Veðurstofu Íslands, tengd Vegagerðinni. Upplýsingar frá þeirri stöð voru meðhöndlaðar eins og upplýsingar frá öðrum veðurstöðvum og fóru þar með einnig inn í textavarpið. Undanfarna mánuði hafa upplýsingar frá stöðinni ekki verið birtar í textavarpinu en Vegagerðin hefur þó allan tímann haft aðgang að stöðinni. Var þetta gert að ósk Veðurstofunnar,`` --- ég ítreka, að ósk Veðurstofunnar --- ,,meðan hún athugaði ýmis formsatriði varðandi birtingu veðurupplýsinga og stefna væri mótuð í þeim efnum til frambúðar.``
    Í september voru teknar upp viðræður milli Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar varðandi samvinnu um veðurupplýsingar þar á meðal um stöðina á Þverfjalli. Þeim viðræðum er ekki lokið. Þó er sú niðurstaða fengin að upplýsingar frá stöðinni á Þverfjalli eru nú birtar í textavarpi sjónvarpsins.
    En það er rétt hjá hv. þm. að þetta mál var á athugunarstigi þegar þessi fyrirspurn var lögð fram og hið fyrsta svar sem ég fékk varðandi þessi mál var að þá hafði ekki verið gengið endanlega frá því máli.
    Ég kannast ekki við að Vegagerðin hafi viljað standa gegn því að upplýsingar um veður og færð liggi sem auðveldast fyrir. Ég átta mig heldur ekki á athugasemdum hv. þm. um að það hafi verið staðið í vegi fyrir því að nauðsynlegar veðurupplýsingar bærust flugfélaginu Erni á Ísafirði en mun að sjálfsögðu vegna orða og ummæla hv. þm. hafa samband við framkvæmdastjóra Ernis og spyrja hann út í það hvað hann telji aðfinnsluvert og hvað betur megi fara varðandi þá þjónustu sem er í höndum samgrn. Ef með þarf mun ég hafa sambandi við hæstv. umhvrh. ef einhver óþarfa tregða er á því að veita því flugfélagi eðlilegar og nauðsynlegar upplýsingar.