Veðurathugunarstöð á Þverfjalli

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:20:46 (1768)


[17:20]
     Fyrirspyrjandi (Pétur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svör hans og fagna því að þetta mál er komið til betri vegar. Eitthvað hefur hæstv. ráðherra misskilið mitt mál ef hann hefur heyrt að ég hafi talið að Vegagerðin stæði gegn þessu, það hef ég ekki sagt. Hins vegar upplýsti ég að Vegagerðin gat ekki sagt eða svarað hvenær þetta mundi gerast þegar ég leitaði upplýsinga þar um hvenær þetta mundi koma eða hvort það yfirleitt mundi koma inn í textavarp aftur. Það voru þær upplýsingar sem ég gaf í þessu.
    Hvað snertir upplýsingar fyrir flug þá á það einnig við um textavarp. Ég ræddi hér um litlar flugvélar og hef þar fyrir mér upplýsingar frá einkaflugmanni sem stundar flug frá Ísafjarðarflugvelli og hefur stundum flogið fyrir flugfélagið Erni. Þannig að þessar upplýsingar eru beint frá honum og ég býst við að flugfélagið Ernir hafi átt fullan aðgang að veðurupplýsingum. En það breytir því ekki að þær voru ekki aðgengilegar í textavarpi fyrir þessa einkaflugmenn eða aðra. Það er ekki vakt á Vegagerð ríkisins t.d. að kvöld- og næturlagi til þess að veita upplýsingar um þær mælingar sem þá fara fram uppi á Breiðadalsheiði. En ég ítreka það einmitt að Breiðadalsheiði gefur mjög glöggar upplýsingar og þær bestu, samkvæmt upplýsingum flugmanna, um flugskilyrði í nágrenni Skutulsfjarðar.