Greiðslur atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:24:26 (1770)


[17:24]
     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 243 lagt fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. um greiðslur atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga.
    Hinn 1. jan. 1991 var, þegar upp var tekið tryggingagjald, sjálfstætt starfandi einstaklingum skapaður viss réttur í Atvinnuleysistryggingasjóði með því að ákveðinn hluti af tryggingagjaldi var greiddur þangað. Í framhaldi af þessari ákvörðun Alþingis var skipaður vinnuhópur sem hafði það hlutverk að finna leið til þess að skapa þessum hópum, þ.e. sjálfstætt starfandi einstaklingum, rétt til atvinnuleysisbóta. Þessi vinnuhópur skilaði tillögum og í framhaldi af þeim tillögum var gerð sú lagabreyting á Alþingi, sem tók gildi 30. júní 1993, að sjálfstætt starfandi einstaklingum var skapaður réttur í Atvinnuleysistryggingasjóði. En því miður þrátt fyrir góðan vilja þá var það svo að það voru þrír hópar sem ekki náðu rétti sínum með þeim lagabreytingum. Það voru í fyrsta lagi trillusjómenn, í öðru lagi vörubifreiðastjórar og í þriðja lagi bændur.
    Á síðasta þingi lögðum við þrír þingmenn Framsóknarflokksins fram frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, með síðari breytingum. Það frv. fékkst ekki útrætt á hinu háa Alþingi. Þáv. hæstv. félmrh., núv. hv. þm., Jóhanna Sigurðardóttir, lofaði því í þeirri umræðu að það skyldi tekið á vandamálum þessara stétta með sérstakri reglugerð, sem þáv. hæstv. félmrh. ætlaði að gefa út, til þess að skapa þessum áðurnefndu hópum rétt. Sú reglugerð var gefin út í maí og er nr. 304/1994. Í 9. gr. þeirrar reglugerðar er gert ráð fyrir því að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skuli semja viðmiðunarreglur um framkvæmd 4.--7. gr. þessarar reglugerðar sem síðan skuli hljóta staðfestingu félmrh.
    Því spyr ég hæstv. félmrh. ,,Hvað líður gerð þeirra viðmiðunarreglna, sbr. 9. gr. reglugerðar nr.

304/1994, sem félagsmálaráðherra ætlaði að setja að fengnum tillögum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingar fái atvinnuleysisbætur?``