Styrkur til markaðsátaks í EES-löndunum

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:45:32 (1778)

[17:45]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram í máli fyrirspyrjanda að nefndin skilaði einróma tillögum til ríkisstjórnar og ágreiningur varð hins vegar um þetta eina atriði.
    Í annan stað vegna athugasemda hv. þm. Svavars Gestssonar hvort þetta eru fagleg vinnubrögð eða ekki þá er ég ekki sammála honum um að svo sé ekki. Fulltrúar fjögurra ráðuneyta, þ.e. utanríkis-, sjávarútvegs-, iðnaðar- og viðskipta-, samgöngu- og landbúnaðarráðuneytis eiga sæti í úthlutunarnefndinni sem og framkvæmdastjóri Útflutningsráðs. Nefndin hefur sett sér mjög rækilegar starfsreglur og tekið það fram skýrt og skilmerkilega að um sé að ræða að greiða allt að 50% af áætluðum kostnaði vegna beinna markaðsaðgerða, þ.e. skilgreindra markaðsrannsókna, gerð kynningargagna, heimsóknir á markaði í tengslum við markaðsátak, sýningarþátttöku, auglýsinga og fyrirgreiðslna við sölusamninga. En ekki til þess að greiða launakostnað, fjárfestingu í aðföngum, vélum og tækjum. Sér í lagi er lögð áhersla á líkur á markaðslegum árangri erlendis. Sömu mennirnir sem hafa farið faglega yfir allar umsóknir, þ.e. þeir Sveinn Þorgrímsson verkfræðingur fyrir hönd iðn.- og viðskrn. og Vilhjálmur Guðmundsson, deildarstjóri sérverkefnadeildar hjá Útflutningsráði Íslands.
    Í þessu tilviki voru alls 42 aðilar eins og ég sagði sem úthlutað hefur verið til en fjöldi umsækjenda var auðvitað allmiklu meiri og sömuleiðis sú upphæð sem alls var sótt um. Ég hygg því að sú megináhersla á markaðsátakið og þær starfsreglur sem hafa verið lagðar hafi verið eðlilegar. Að því er varðar hvort eðlilegt hafi verið að veita þessa fjármuni til stofnana eins og sendiráðs skal ég fúslega viðurkenna að það kann að vera álitamál. Í starfsreglunum segir fyrirtæki, einstaklingar, stofnanir. Hér var um að ræða markaðsátak sem fjöldi íslenskra fyrirtækja átti beina aðild að og styrkti með fjárframlögum svo ekki var óeðlilegt að sú fyrirgreiðsla sem þeim var látin í té, og ég er ekki í nokkrum vafa um að muni skila árangri, væri einnig styrkt því hún féll undir regluna.