Hækkun skattleysismarka

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:52:20 (1781)

[17:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Varðandi fyrri lið fsp. skal tekið fram að samkvæmt skattframtali fyrir 1993 var heildarfjöldi framteljenda tæplega 190.000. Þar af voru 36% framteljendanna með tekjur undir skattleysismörkum. Tekjustofn þeirra allra var um 229 milljarðar króna. Framteljendur 67 ára og eldri voru tæplega 26.000 talsins sem er tæp 14% allra framteljenda. Af þessum fjölda voru um 40% neðan skattleysismarka. Skattskyldar tekjur þeirra voru um 24,5 milljarðar kr. eða tæp 11% allra skattskyldra tekna. Áætlað er að tekjuskattur og útsvar manna 67 ára og eldri séu rúmir 3 milljarðar kr. miðað við þau skattleysismörk sem voru í gildi við álagningu 1994 en það eru 57.477 kr. á mánuði. Með hækkun skattleysismarka í 70 þús. kr. á mánuði er áætlað að álagðir skattar mundu verða tæplega 2,1 milljarður kr. eða 900--1.000 millj. lægri en nú er. Það er kostnaðurinn.
    Varðandi annan liðinn skal tekið fram að tekjuskattar eru lagðir á samkvæmt tiltölulega einföldu kerfi sem þróast hefur í núverandi horf í samræmi við þróun í þessum efnum á Vesturlöndum og reyndar höfum við í sumum tilvikum verið á undan þeirri þróun. Megineinkenni þessarar þróunar er víðtækt tekjuhugtak, fáar undantekningar og frádrættir og tiltölulega einfaldar skattareglur.
    Auk þess að afla ríkissjóði tekna er viðurkennt hlutverk tekjuskattskerfisins að stuðla að tekjujöfnun. Er það gert með því að skattlagning er ákveðin með tilliti til greiðslugetu. Hér á landi er það gert með tvennum hætti. Að hluta til kemur það fram í því að litið er á tekjur sem mælikvarða á greiðslugetu, hlutfallslegur skattur og almennur persónuafsláttur veldur því að lægstu tekjur eru skattfrjálsar en skattbyrði fer vaxandi ofan skattleysismarkanna. Að öðru leyti er þessum sjónarmiðum mætt með því að koma til móts við hópa með sérstaka greiðslubyrði vegna barnaframfæris og húsnæðisöflunar, svo tekið sé dæmi.
    Sérstök hækkun skattleysismarka fyrir tiltekna aldurshópa hlýtur þess vegna að brjóta í bága við þessi meginsjónarmið. Sérstök hækkun skattleysismarka fyrir 67 ára og eldri í 70 þús. kr. á mánuði hefði í för með sér rúmlega 7.000 kr. hækkun tekna eftir skatt hjá þeim sem hafa tekjur yfir 70 þús. en engin áhrif á þá sem eru með tekjur undir 57.500 kr. en þeir eru um 40% allra í þessum aldursflokki. Til þess að lýsa þessu enn betur hefði þetta sömu áhrif og það að greiða þeim sem eru með yfir 70 þús. kr. í tekjur sérstakan ellilífeyri að fjárhæð 9.000 kr. á mánuði sem færi lækkandi með lægri tekjum og félli alveg niður ef tekjur væru lægri en 57.500 kr. á mánuði. Slík breyting er að sjálfsögðu andstæð öllum tekjujöfnunar- og framfærslusjónarmiðum.
    Það er m.a. af þessum ástæðum sem ég er ekki tilbúinn að beita mér fyrir eða styðja slíkar breytingar að öðru óbreyttu. Ég tel þetta því ekki vera réttu leiðina til að koma til móts við þá sem verst eru settir í þessum aldurshópi. Ég skil þó fsp. hv. þm. þannig að hann sé að benda á að leita þurfi leiða til þess að koma til móts við þá sem eru tekjulægstir og verst settir í hópi aldraðra. Það er vissulega athugunarefni og hefur m.a. verið kannað upp á síðkastið í tengslum við umræðu um svokallaða tvísköttun lífeyrisgreiðslna og jafnframt vegna svokallaðra eingreiðslna sem hafa verið hluti af kjarasamningum.
    Því miður get ég ekki lýst því nákvæmlega hvernig ég gæti hugsað mér að koma til móts við þennan hóp sérstaklega en eins og ég sagði fyrr í mínu svari þá tel ég þessa aðferð ekki til bóta.